24.03.1941
Neðri deild: 22. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

32. mál, fjarskipti

*Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Það er að vísu fyllilega réttmætt að gera þá kröfu á hendur landssímanum, að hann fullnægi eftirspurn eftir þeim tækjum, sem hann hefur einkarétt á, og hafi þau fyrirliggjandi. Þetta kom til umræðu í n. og milli hennar og póst- og símamálastjóra. En hann taldi ekki hægt að hraða smíði stöðvanna meir en gert er og því væri ókleift að fullnægja eftirspurn, þótt hann viðurkenndi, að það væri mjög. leitt. Það ber að leggja áherzlu á að reyna að kippa þessu í lag. Þótt það komi raunar ekki þessu frv. mjög mikið við, eftir að búið er að ákveða, að landssíminn skuli hafa einkaréttinn, hvað sem öðru líður, vil ég gjarnan heita hv. þm. Ísaf. því, að þetta atriði skal verða rætt til meiri hlítar við póst- og símamálastjóra fyrir næstu umr., og kemur þá fram, hvað hann telur kleift og með hverju móti. En gagnslaust væri að heimta nú með lögákvæði það, sem ókleift reyndist í framkvæmd. Nefndarmenn líta á l. sem bráðabirgðalög, og m. a. þess vegna sjá þeir ekki ástæðu . til að endursemja þau nú til einnar nætur, meðan þau virðast ná viðunanlega tilgangi sínum í framkvæmd á þessum hverfulu tímum.