02.04.1941
Neðri deild: 29. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

32. mál, fjarskipti

*Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. með því að ræða hér um frv. sjálft né heldur þær brtt., sem hér liggja fyrir, heldur voru það nokkur heiti og orð í frv. og brtt. hv. n., sem mig langaði til að spyrja um.

Eins og hv. frsm. er kunnugt, hefur orðið „virki“ fengið sérstaka merkingu hér. Orðið er karlkynsorð og notað um þá, sem starfa við ýmsar vélar og tæki, en hér í þessu frv. og brtt. hv. n. er orðið notað í hvorugkyni um tækin og vélarnar.

Það er rétt, að „virki“ eins og það er notað hér er nær upphaflegri merkingu orðsins og meir að lögum íslenzkrar tungu. En hins vegar væri full þörf á því að kveða niður það ósamræmi, sem er hér í notkun ýmissa orða, bæði í lagamáli og annars staðar, og binda enda á allan rugling í þessu efni. Eins og hv. þdm. er kunnugt og ég vék að í upphafi, er orðið „virki“ að. fá nokkra festu í merkingunni „rafvirki“, „bifvélavirki“, „útvarpsvirki“.

Ég skýt þessu aðeins hér inn til athugunar, án þess að ég geri sérstaka brtt. viðvíkjandi því. En vegna þess, að illt er að nota sama orðið um svo að segja gagnstæða hluti, þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. frsm., hvað hv. n. hafi gert til þess að firra okkur þessu ósamræmi, og enn fremur, hvort þeim hafi t. d. ekki sýnzt fært að nota orðið „fjarskiptatæki“ í stað „fjarskiptavirki“.