21.04.1941
Efri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

50. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Jóhann Jósefsson:

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem að mörgu leyti voru allýtarleg, hvað upptalningar snerti. Ég skal ekki vefengja að þar hafi verið rétt með farið í þeim atriðum, sem hæstv. ráðh. vék að. Hins vegar er svo að sjá, eftir að hæstv. ráðh. hefur sett fram sín sjónarmið, að það hafi togazt á í honum nokkuð andstæð öfl, að því er snerti, hvaða stefnu byrjað var að taka gagnvart þeim innieignum, sem söfnuðust fyrir í enskum bönkum fyrir reikning íslenzkra aðila, því ég held, að hæstv. ráðh. hafi lýst yfir því á opinberum vettvangi, — það var að minnsta kosti hans blað —, að nauðsynlegt væri að safna sem mestu fyrir af innieignum í enskum pundum. Það virðast hafa togazt á í honum þessi tvö öfl, annars vegar að safna pundum og hins vegar að kaupa vörur í Englandi. Ég skal að þessu sinni ekki fara langt út í að ræða þessar andstæður, sem komið hafa fram í hugar fari hæstv. ráðh., ekki sízt þar sem hann hefur óskað eftir fresti til þess að svara sumu af mínum fyrirspurnum, en ég vil aðeins benda á, að þær hafa verið fyrir hendi.

Hæstv. ráðh. upplýsti að því er snertir innieign Landsbankans í Englandi, að hún hafi verið orðin 2 millj. punda, þegar farið var að hugsa til að minnka eitthvað yfirreikninginn. (Viðskmrh.: Ég sagði: Þegar það komst í framkvæmd). Ég er ekkert að segja, að grípa hefði átt til þessa ráðs. Ég er aðeins að benda á ósamræmið í aðferð bankanna og stjórnarvaldanna í meðferð líra og marka áður og gagnvart pundunum nú. Hæstv. ráðh. hefur að vísu haft tvær skýringar á þessu. Aðra þá, að bankinu hafi í lengstu lög viljað leyfa mönnum að leggja inn pund upp í skuldir sínar, og hina, að borizt hafi meira af pundum frá herstjórninni en búizt var við.

Það, sem ég legg í rauninni mesta áherzlu á nú, er ekki það liðna, heldur það, að forðazt verði í framtíðinni, að þjóðin þurfa að bíða tjón af því að þessum ákvæðum verði beitt óskynsamlega.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef ég héldi fram, að leyfa ætti mönnum að kaupa skip fyrir innifrosin pund (Viðskmrh.: Ég sagði ekki skip.), þá færi það í bága við tilgang þessara hamla. hað getur vel verið, að það rekist á þessar settu reglur.

Ég bið hæstv. ráðh. að taka það til athugunar, að hér getur verið um upphæðir að ræða, sem mjög er vafasamt, hvort koma eigendum eða þjóðfélaginu að notum. Í því sambandi vil ég helzt óska þess, að ekki séu sett svo einstrengingsleg ákvæði í þessum efnum, að af þeim geti hlotizt alveg sýnilegt tjón. Hæstv. ráðh. sagði, að ef um vörur væri að ræða, sem einhver vildi borga með bundnum pundum, en hins vegar væri unnt að afla þeirra með pundum, sem bankinn seldi, þá ætti ekki að leyfa að nota þessi pund. Ég vil benda á það, að það er vel hugsanlegt, að menn, sem hafa tök á bundnum pundum, geti fengið vörur fyrir þau, sem þeir ekki geta aflað með peningum frá bönkunum, sumpart af því að þeir eiga ekki fé í bönkunum. Það virðist því, að haganlegt lánsfé gæti riðið baggamuninn um það að fá greitt á þann hátt. Ég vil benda á það, að ég hef heyrt svo mikið niðri í sumum af þeim, sem ráða í bankamálum, að mér hefur á því ekki getað skilizt, að trygging í bundnum pundum væri mikils virði. Ég vil halda því fram, að það sé ekki ábyggilegt, að sá, sem á bundin pund, geti fengið það lán, sem þá þyrfti, til þess að afla þessara vara á annan hátt í bönkunum. Hitt er víst, að það yrði honum alltaf dýrt, jafnvel þó að viðkomandi maður ætti íslenzka peninga og gæti fengið keypta fyrir þá útlenda peninga, t. d. sterlingspund. Það gæti verið álitamál, hvort hann vildi fórna þeim fyrir þessa vöru eða teldi það borga sig, þar sem hann mundi sennilega fús til að verja þessum innifrosna gjaldeyri fyrir þessa vöru. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vilja nefna skip í þessu sambandi, og verð ég að skilja það þannig, að hann líti svo á, ef um skipakaup sé að ræða, að hann vilji ekki láta það sama gilda um þau og aðrar vörur. Ég vil benda á það, að ég tel það alveg háskalegt hjá gjaldeyriskaupan., ef hún sumpart dregur menn á svörum og sumpart neitar þeim um að nota bundin pund til að afla skipakosts. Það er alþekkt, að mönnum gefast nú fá tækifæri til þess að eignast skip, og þau fáu tækifæri, sem gefast, verður því að grípa strax. Það er því með öllu óviðunandi að þurfa að bíða vikum saman eftir samþykki gjaldeyriskaupan. Ég get um þetta hér og bið hæstv. ráðh. að athuga það, vegna þess að hann sagði, að þær starfsreglur, sem giltu fyrir gjaldeyriskaupan., væru ósamþ. Hæstv. ráðh. sagði, að hann gæti ekki gefið upp þær upphæðir, sem íslenzkir innflytjendur ættu innifrosnar, og skal ég ekki krefja hann um það. En hitt vil ég segja, að það fer að verða ákaflega erfitt ástand ef takmarkalaust er tekið á móti þess háttar skuldbindingum og síðan farið að skera við nögl sér afrakstur af íslenzkum afurðum. Með því að hæstv. ráðh. gleymdi að svara sumu af þessu, skal ég ekki svara fleiru að sinni. Að því er snertir fyrirspurn, sem hv. 1. þm. N.-M. beindi til mín, verð ég að kannast við það, að ég er ekki í þessu innkaupafélagi, sem hann minntist á, hvorki meðlimur né í stjórn þess. Ég get því ekki svarað þessari fyrirspurn um innkaupafélagið. Hins vegar hefur viðskmráðun. áskilið sér rétt til að hlutast til um, hvað er í þessum skipum, sem koma vestan um haf, ef nokkuð er farið fram á, sem fer fram yfir brýnustu lífsnauðsynjar, að því er ég bezt veit. Ég bið því hv. þm. að beina þessari fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., sem ræður þessum málum.