20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Ísleifur Högnason:

Þann 28. apríl s. 1. samþ. hæstv. Alþ. mótmæli við stjórnarvöldin brezku út af handtöku íslenzkra ríkisborgara og þar á meðal íslenzks alþm. og banni því, er Bretar höfðu lagt við útkomu íslenzks dagblaðs.

Nú vil ég gera þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort brezk stjórnarvöld hafi gersamlega hundsað þessi mótmæli hæstv. Alþ. eða hvort nokkuð hafi komið frá brezku ríkisstj. sem svar við þessum mótmælum. Vil ég enn fremur gera þá fyrirspurn til hv. flm. þessarar þáltill. um mótmælin, sem voru hæstv. forseti sameinaðs Alþ., þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, hæstv. forseti þessarar d., 1. þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson, og háttv. varaforseti þessarar d., Gísli Sveinsson, þm. V.-Sk., og fyrirspurn mín til þessara hæstv. forseta, sem voru fhn. þáltill., er um það, hvort þeir sætti sig við þessa hundsun brezkra yfirvalda og aðgerðaleysi þeirra í málinu, og hvort þeir ekki vilja taka málið að nýju fyrir í sameinuðu Alþ. og ítreka þessi mótmæli með kröfu um það, að mönnunum verði tafarlaust skilað heim, og þá ekki sízt þeim alþm., sem um ræðir í þáltill.