20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

11. mál, utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúar þess erlendis

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Eins og hv. d. er bezt kunnugt, var samþ. hér á Alþ. 10. apríl 1940, að utanríkismálin yrðu tekin í hendur Íslendinga. Af þessu leiddi ýmsar ráðstafanir, sem gera þurfti í þessum málum. Að vísu voru ýmis utanríkismál raunverulega í höndum Íslendinga, áður en þessi ályktun var gerð, en þó voru mörg, sem farið var með af hálfu þess

umboðsmanns utanríkismálaráðun. danska, sem um þau átti að fjalla samkv. ákvæðum sambandslaganna frá 1918.

Um leið og þessi ályktun var gerð á Alþ., var í raun og veru í fyrsta skipti stofnað sérstakt utanríkismálaráðuneyti á Íslandi. Áður hafði það verið deild í stjórnarráðinu, sem hafði að vísu sérstakan skrifstofustjóra á seinni árum, sem fór með þessi mál af okkar hálfu, en framan af voru þau þó aðallega í höndum eins aðstoðarmanns, sem stóð beint undir þann ráðherra, sem með utanríkismálin fór. En stofnun sérstaks utanríkismálaráðuneytis að forminu til var ekki stærsta skipulagsbreytingin, sem þessi ályktun hafði í för með sér, heldur var hitt ef til vill mikilsverðara, að með henni fengum við í fyrsta sinn sjálfstæða utanríkisþjónustu, fulltrúa valda af íslenzku ríkisstjórninni til þess að gæta hagsmuna íslenzku þjóðarinnar erlendis.

En eftir ályktunina 10. apríl var auðsætt, að setja yrði sem fyrst um þetta einhverjar fastar reglur, sérstaklega eftir að utanríkisþjónustan erlendis var komin á. Það mátti ekki dragast til næsta Alþ. Þess vegna voru gefin út bráðabirgðal., sem hér liggja fyrir. Þau voru gefin út 8. júlí 1940.

Hvað mest knýjandi ástæðan fyrir setningu þessara bráðabirgðal. var sú, að setja þurfti reglur um starfsemi erindreka þjóðarinnar erlendis, til þess að þeir gætu með bindandi verkun framkvæmt viss störf, sem alltaf falla í verkahring slíkra útsendra fulltrúa, svo sem ýmsar embættisgerðir — notarialgerðir — sem verða að hafa lagalegan grundvöll. Í annan stað var það harla nauðsynlegt fyrir álit íslenzka ríkisins, að fyrsta utanríkisþjónustan, sem var runnin heiman frá Íslandi, væri byggð á lögum, því að þannig er það í öllum menningarlöndum, að utanríkisþjónustan er byggð á sérstökum 1. og fyrirmælum.

Í raun og veru teldi ég rétt, og því vildi ég skjóta til n., sem fær málið til meðferðar, að bæta við einni eða tveimur greinum, þar sem slegið væri föstu, að starfandi væri utanríkismálaráðuneyti í Reykjavík, og að starfsmenn þess væru sumpart þeir, sem störfuðu í ráðuneytinu hér heima, og sumpart þeir menn, sem störfuðu erlendis á vegum íslenzku ríkisstj. sem fulltrúar íslenzka ríkisins. Ég teldi þetta rétt og formlegra fyrir allra hluta sakir og einnig vegna þess, að allir Íslendingar munu án efa vænta þess, að hér eftir verði utanríkismálin eingöngu í höndum Íslendinga sjálfra, hverju sem fram fer að öðru leyti um sjálfstæðismál okkar. Við höfum þegar sýnt það, með þeim ráðstöfunum, sem við erum búnir að gera, að við erum þess megnugir að taka þessi mál í okkar hendur að öllu leyti. Okkur mun ekki vanta dugandi menn til að takast á hendur þessi störf, og fjárhagshliðina verður okkur ekki ofvaxið að yfirstíga, ef skynsamlega er á málunum haldið.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að vera mjög langorður. Það er undirbúið af Sveini Björnssyni sendiherra, sem er trúnaðarmaður ríkisstj. í þessum málum, og athugað í utanríkismálaráðuneytinu hér heima, enn fremur hefur það verið rætt ýtarlega í ríkisstjórninni.

Í frv. er því slegið föstu, að útsendir fulltrúar skuli vera tvenns konar. Annars vegar diplómatískir erindrekar — sendiherrar og sendifulltrúar — og hins vegar verzlunarerindrekar — konsúlar og ræðismenn —. Er þessi skipting í samræmi við það, sem tíðkast í þessum efnum meðal annarra þjóða. Hins vegar er því ekki slegið föstu í frv., hvar skuli vera sendisveitir og ræðismenn, en það er gert í sams konar lögum hjá flestum öðrum þjóðum. Þótti ekki rétt að slá því föstu að svo stöddu, meðan þessi starfsemi er á byrjunarstigi og nauðsynlegt er að prófa sig áfram í þeim efnum. Er þess vegna ákveðið í frv., að það skuli ákveðið með sérstakri tilskipun af ríkisstj., hvar skuli vera stofnuð sendiráð og ræðismannsstöður.

Ég skal geta þess, að eins og hv. þm. vita, var aðeins til eitt íslenzkt sendiráð áður en 1. gengu í gildi, — það var sendiráðið í Kaupmannahöfn. Þegar sambandsl. frá 1918 gengu í gildi, var stofnað íslenzkt sendiráð í Kaupmannahöfn, og hefur það starfað allan þann tíma, sem síðan er liðinn. En nú hefur verið bætt við 3 sendiráðum, sendiráðinu í London, og Stokkhólmi og auk þess sendifulltrúa hjá norsku landflóttastjórninni í London. Auk þess hefur verið stofnað sérstakt aðalkonsúlat í New York, eftir nákvæma athugun á því máli, en þar hefði getað komið til mála að hafa sendiráð, en eftir upplýsingum, sem fyrir liggja frá útsendum fulltrúum, bæði Thor Thors og Vilhjálmi Þór, þótti ekki að svo komnu máli ástæða vera til að stofna sendiráð í Bandaríkjunum. Sendiráðið hefði þurft að hafa aðsetur sitt í Washington, — aðsetursstað stjórnarinnar —, en hins vegar er langmest að gera fyrir erindrekann í aðalstöð viðskipta Bandaríkjanna, sem er New York. Það hefði hins vegar orðið mjög kostnaðarsamt að hafa sendimenn á báðum stöðunum, eins og flestar aðrar þjóðir hafa. Ég get líka upplýst, að með núverandi fyrirkomulagi höfum við tryggingu fyrir því, að fulltrúi okkar eigi nokkuð greiðan og beinan aðgang að utanríkisráðuneytinu í Washington.

Þá vil ég minnast á það atriði, sem mörgum mun finnast einkennilegt, en það eru laun sendimannanna. Í 4. gr. segir, að árslaun sendiherra skuli vera 10000 kr., árslaun sendifulltrúa og útsendra aðalræðimanna 8000 kr. og útsendra ræðismanna 4200 kr. Ríkisstj. fannst að öllu leyti eðlilegast, að launin væru svipuð að hæð eins og laun þeirra íslenzkra embættismanna, sem hæst laun hafa, en það er talið 10000 krónur. Hins vegar er talið nauðsynlegt, að þessir menn fái vissar uppbætur, eftir því í hvaða landi þeir eru (staðaruppbætur). Ég tel þetta fyrirkomulag mjög hagkvæmt fyrir íslenzka ríkið, því að það er gert ráð fyrir, að íslenzkir sendimenn erlendis muni öðru hverju vera kallaðir til þjónustu hér heima í utanríkismálaráðuneytinu í Reykjavík. En það væri næsta óeðlilegt, að þeir hefðu þá miklu hærri laun en aðrir íslenzkir embættismenn. Með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi staðaruppbótin hverfa, ef viðkomandi væri kallaður til þjónustu hér heima, og hann þá hafa sín föstu grunnlaun.

Það mundi ef til vill vera fróðlegt að heyra um, hvaða staðaruppbætur hafa verið ákveðnar til bráðabirgða til sendimanna okkar erlendis, og skal ég gjarnan gefa upplýsingar um það.

Staðaruppbót sendifulltrúans í London hefur verið ákveðin 23000 ísl. kr., og er það miðað við það, að sendifulltrúinn hafi 100 pund á mánuði, en þau launakjör hafði Pétur Benediktsson áður sem starfsmaður dönsku sendisveitarinnar í London, og gaf hann kost á sér fyrir sömu laun. Hins vegar má búast við, að staðaruppbótin hljóti að hækka, vegna vaxandi dýrtíðar í Englandi. Ég skal geta þess, að sendimönnum er ekki ákveðin nein sérstök risna, en staðaruppbótin er miðuð við það, að þeir geti komið fram á þann hátt, sem þykir sæmilegt, án nokkurs íburður eða tildurs, svo að ekki verði álitið, að hér sé um sendimenn slíks kotríkis að ræða, sem skeri sig úr frá öðrum sendimönnum.

Staðaruppbót aðalræðismannsins í New York hefur verið ákveðin 35000 ísl. kr. Er það nokkru lægra en staðaruppbót sams konar starfsmanna norskra, eins og hún var, áður en Noregur var lagður undir Þýzkaland, og allmiklu lægri en staðaruppbót aðalræðismanns Svía í New York.

Staðaruppbót sendifulltrúans í Stokkhólmi var ákveðin 22000 ísl. kr. Sendifulltrúinn hefur þannig eins og er 30000 ísl. kr. í árslaun, og mun það vera lægra en hjá nokkrum útsendum sendifulltrúum þar í landi.

Þetta vildi ég taka fram viðvíkjandi ákvæðum frv. um launakjör sendimanna ríkisins.

Í 5. gr. frv. er rætt um kjörræðismenn, en það er gert ráð fyrir, að þeir verði útnefndir allvíða. Er verið að undirbúa útnefningu allmargra kjörræðismanna, aðallega í Bretlandi, Bandarfkjunum og Kanada. Hefur þegar verið skipaður einn kjörræðismaður í Edinborg og Leith, Sigursteinn Magnússon, sem þar hefur dvalið alllengi. Er undirbúningi undir útnefningu kjörræðismanna alllangt komið, og liggja þegar fyrir tillögur frá útsendum fulltrúum viðvíkjandi þessu máli. Hefur komið til orða að útnefna kjörræðismenn á eftirtöldum stöðum í Bretlandi, auk þess, sem þegar hefur verið útnefndur:

Hull, Newcastle, Aberdeen, Grimsby, Fleetwood, Glasgow og Liverpool. Aðalræðismaðurinn í New York hefur gert

tillögur um að útnefna kjörræðismenn á eftirtöldum stöðum í Bandaríkjunum:

Chicago, Boston, Baltimore, San Francisco, Portland, Grand Forks, Minneapolis, og enn fremur á þessum stöðum í Kanada:

Halifax, Winnipeg, Montreal, St. John (Nova Scotia), St. Johns (New Foundland).

Það hefur ekki enn þá unnizt tími til þess að ákveða um útnefningu þessara kjörræðismanna, en búast má við, að það verði gerð gangskör að því að koma henni í kring á næstunni.

Ég skal geta þess, að í 10. gr. frv. er gert

ráð fyrir, að fyrir embættisverk starfsmanna utanríkismála skuli greiða gjald eftir nánari. reglum, sem settar verða. Frv. að þessari reglugerð hefur þegar verið samið og er til athugunar hjá ríkisstj., sérstaklega í fjármálaráðuneytinu. Má gera ráð fyrir, að gengið verði til fullnustu frá þessari reglugerð á næstunni.

Loks er gert ráð fyrir því í 11. gr., að ríkisstj. setji sendimönnum ríkisins starfsreglur. Sveinn Björnsson sendiherra hefur, eftir beiðni ríkisstj., samið leiðbeiningabók fyrir sendimenn ríkisins erlendis. Er verið að leggja síðustu hönd að því að þýða þessa bók á enska tungu, því að gera má ráð fyrir, að talsvert af kjörræðismönnum okkar verði ekki íslenzkir ríkisborgarar og skilji ekki eða lesi íslenzka tungu. Þessir menn þurfa því að hafa leiðbeiningarreglur á einhverju máli, sem þeir geta sjálfir lesið og skilið. Þessi bók Sveins Björnssonar verður mikið rit. Má búast við, að farið verði bráðlega að prenta það. Verður það síðan sent fulltrúum Íslands erlendis, ekki einungis útsendum fulltrúum, heldur og kjörræðismönnum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um frv. miklu fleiri orðum. En ég vildi æskja þess, að hv. allshn., sem ég legg til, að fái frv. til athugunar að lokinni umr., geri sér grein fyrir, eins og ég ræddi um áðan, hvort ekki komi til mála að bæta við frv. ákvæðum, þar sem því væri slegið föstu, sem þegar er komið til framkvæmda um utanríkisráðuneytið í Reykjavík. Ég er fús til að veita þeim, sem óska, upplýsingar um þetta mál, hað er þess eðlis, flestum öðrum málum fremur, að vanda þarf í upphafi grundvöll þess eins og frekast verður unnt. Ég geri ráð fyrir, að setja þurfi sérstaka reglugerð um starfsemi utanríkisráðuneytisins í Reykjavík. Ég býst við, að nauðsyn reynist að kljúfa það a. m. k. í tvær deildir, annars vegar verzlunar- og viðskiptadeild, hins vegar stjórnmáladeild og löggjafar. Herra Sveinn Björnsson hefur ritað ríkisstj. ýtarlegt erindi um þessi mál, og þótt ekki hafi verið tekin nein afstaða til þeirra í ríkisstj. enn, verður ekki hjá því komizt til lengdar. Erlendis er utanríkisráðuneyti alls staðar haft í fleiri deildum en tveim, en sakir fámennis og fátæktar verðum við að sniða okkur stakk eftir vexti og fjölga ekki nema sem allra minnst. Sú hugsun má þó aldrei leiða til þess kotungsháttar, að svikizt sé um að gera þær ráðstafanir, sem brýnt er að gera í þýðingarmestu efnum, eins. og óhætt er að telja þessi mál þjóðfélagsins.