20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

11. mál, utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúar þess erlendis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Um þetta frv. er í rauninni ekki mikið að segja. Það er eðlileg og sjálfsögð afleiðing þess spors, sem Alþ. steig í fyrra, 10. apríl, að taka utanríkismál ríkisins að fullu í okkar hendur.

Annað mál er það, að um leið og hin nýja skipan utanríkismálanna er nánar ákveðin með lögum, eins og frv, þetta miðar að, verður óhjákvæmilega að ákveða eitthvað um það, að við Íslendingar eigum að hafa einhverja utanríkismálastefnu sjálfir, í samræmi við þjóðarhagsmuni okkar, en ekki neitt annað.

Það hefur verið reynt að sjá svo um, að ekki gæfist tilefni til slíkra umræðna hér á Alþ. síðan l0. apríl s. l. Undanfarið hefur ríkisstj. tekið með launung og einræði, en ekki þingræði, ákvarðanir í málum, sem varða alþjóð og Alþ. á skyldu og kröfu til að ræða, sumt e. t. v. fyrir luktum dyrum, en margt þannig, að almenningur fengi að fylgjast með, svo að hann gæti síðan tekið til þess heilbrigða afstöðu, eins og vera ber í lýðræðislandi, Nú hefur verið gefið í skyn í blöðum stj., að mjög áríðandi mál lægju fyrir til úrlausnar hjá henni, en Alþ. er dulið þess, hvað í rauninni er að gerast og hverjar ráðstafanir hin svokallaða lýðræðisstjórn landsins hyggst að gera. Þetta er á þeim tíma, þegar allar ríkisstj. um gervallan heim telja það skyldu sína að leggja utanríkismálin öllum öðrum málum fremur undir alþjóðardóm og úrskurð þinganna. Og ég álít, að það sé jafnvel meiri ástæða fyrir íslenzku stj. að gera það en nokkra aðra ríkisstjórn í heimi. Hér hefur verið níðzt á sjálfsögðustu reglum þingræðisins í þessum málum. Það mætti ætla, að hæstv. ríkisstj. þætti samt skynsamlegra að hverfa nú um stund að einhverju leyti frá einræðisstefnunni og ræða málin hér opinberlega. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að hlutast til um það, að þessi veigamiklu mál, sem ég hef drepið á, verði tekin til umræðu.