03.04.1941
Neðri deild: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

11. mál, utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúar þess erlendis

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Frv. þetta var fyrst borið fram sem bráðabirgðal., og sjá hv. þm. því í rökstuðningi fyrir setningu 1. ástæðuna fyrir því, að frv. er borið fram. Bráðabirgðal. eru þannig fyrst afleiðing af þál. þeirri, er samþ. var hér á Alþ. 10. apríl í fyrra, þar sem samþ. var, að Ísland tæki öll utanríkismál sín í sínar hendur, þar sem sýnt þótti, að Danmörk gæti ekki rækt umboð það, sem hún samkv. sambandslagasamningnum hafði til þess að fara með utanríkismál vor.

Allshn. er alveg sammála stj. um, að ekki hafi verið um annað að ræða en setja bráðabirgðal. Jafnframt hefur hún athugað málið allgaumgæfilega og að engu viljað rasa um ráð fram, því að hér er um stórmál að ræða. Afleiðingin af athugunum n. hefur svo orðið sú, að hún hefur borið fram brtt. á þskj. 106, sem allar miða að því að gera 1. skýrari, án þess þó að um efnisbreyt. sé að ræða. Þá hefur og nefndin borið fram á sérstöku þskj. brtt., er henni bárust frá utanríkismálaráðuneytinu, en þær ganga í þá átt að lögfesta utanríkisráðuneytið. Að brtt. þessar eru bornar fram svona sérstaklega, er sakir þess, að n, bárust þær svo seint í hendur, en hins vegar taldi hún alveg sjálfsagt að taka þær upp í lögin.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv. Er þar lagt til að fella niður atkvæðið „mála“ úr orðinu utanríkismálaráðuneytið. Verður heiti ráðuneytisins samkv. því hér eftir : „utanríkisráðuneyti“, í stað „utanríkismálaráðuneyti“. Þetta er fallegra orð.

Þá leggur n. til, að 2. og 3. gr. frv. verði sama greinin. Í 3. gr. frv, segir: „Ríkisstjórnin ákveður með tilskipun, á hvaða stöðum útsendir ræðismenn skuli vera, og skipar þá“. Þetta taldi n. rétt að orða einnig dálítið á annan veg, eins og nál. ber með sér. Greinatalan breytist því. samkv. þessu.

Í 4. gr. frv., sem nú verður 3. gr., eru ákvæði um laun fulltrúa ríkisins erlendis, en þeir eru: sendiherrar, sendifulltrúar, aðalræðismenn, ræðismenn og vararæðismenn. Laun þessara manna eru ákveðin í samræmi við laun embættismanná hér. Þannig er ætlazt til, að laun sendiherra verði hliðstæð launum ráðherra o. s. frv. Þá er og í þessari grein gert ráð fyrir, að greiddar verði staðaruppbætur, sem ríkisstj. á að ákveða með hliðsjón af verðlagi á lífsnauðsynjum þar, sem viðkomandi dvelur.

Þá vil ég geta þess, að n. hefur sett í stað orðanna „að senda menn út“ orðin „að senda menn utan“. Hún vill halda gamla orðinu, „að senda menn utan“. Það er gömul málvenja að orða þetta svo, og þykir því fara betur á því.

Þá leggur n. til, að 8. og 9. gr. verði settar saman í eina grein, og verður það 7. gr. Það þótti fara betur á því að hafa þetta saman.

Þá var og nokkuð rætt um það í n., hvort fulltrúar ráðuneytisins erlendis mættu taka laun fyrir aukastörf, og var n. á einu máli um, að slíkt mætti ekki. Þessi ákvörðun n. kann nú ef til vill að orka nokkuð tvímælis, en n. telur alveg nauðsynlegt, að allt sé gert til þess að þessir trúnaðarmenn okkar á erlendum vettvangi verði gerðir sem háðastir landinu. Samkv. þessu mega þeir ekki heldur gegna störfum hér á landi, svo sem þingstörfum, kaupsýslu o. s. frv. Hér er miðað að því að gera þá sem óháðasta öllum. Við erum fámenn og fátæk þjóð og þurfum því á öllum starfskröftum þeirra að halda. N. sá ekki ástæðu til þess að taka ákvæði um þetta upp í frv., enda ekki hægt að öllu leyti, þar sem ákvæði stjórnarskrárinnar eru alveg tæmandi um það, hverjir megi ekki sitja á þingi. N. treystir því, að þetta verði tekið til athugunar af öllum, sem hlut eiga að máli, enda er þetta í beinu framhaldi af því, sem tíðkazt hefur til þessa um alla þá fulltrúa, er við höfum haft erlendis hingað til, þeir hafa ekki haft nein aukastörf með höndum.

Ég vil leyfa mér að þakka utanríkisráðuneytinu fyrir skýrslu þá um kostnað við utanríkismálin, er n. bað ráðuneytið um og fékk mjög fljótlega. Út af skýrslu þessari vil ég beina þeirri fyrirspurn að hæstv. utanríkisráðh., hvernig á því standi, að fulltrúi í ráðuneytinu virðist hafa 4 þús. kr. hærri laun en skrifstofustjórinn. Slíkt er ekki venja, að undirmaður hafi hærri laun en yfirmaður hans. Samkv. skýrslunni virðist svo sem þessi óeðlilega launagreiðsla eigi að halda áfram.

Hér er talað um skrifstofu Sveins Björnssonar, sendiherra í Reykjavík: Ég efast ekki um, að hér sé um nauðsynlega skrifstofu að ræða, en mér fyndist vel til fundið, ef hæstv. utanríkisráðh, gæfi hér í þinginu upplýsingar um þessa skrifstofu, sem er eftir kostnaðarskýrslunni allkostnaðarsöm, jafnvel kostnaðarsamari en utanríkismálaráðuneytið heima. Samkv. áætlun á fylgiskjali II. er gert ráð fyrir, að sett sé inn í fjárlögin 60 þús. kr. fjárveiting, sem yrði kostnaður vegna samninga við erlend ríki. Er hér átt við ársgreiðslu til danska utanríkismálaráðuneytisins. Má vissulega deila um það, hvort rétt sé að setja þennan lið í fjárl. eða ekki, en ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst eðlilegast, að það sé ekki gert. Þarna er tekið fram, að það sé vafasamt, hvort þessi fjárupphæð verði nokkurn tíma greidd, og gengið út frá því, að ekki þurfi að greiða sérstaklega fyrir þetta starf. Hið sama gildir um sambandslagan., sem ástæða er til að ætla, að ekki starfi lengur. Í síðustu málsgr. á þessu fskj. er þess getið, að ekki liggi fyrir nein viðurkenning um fiskifulltrúa Íslands í Miðjarðarhafslöndunum sem sendifulltrúa á Spáni og Portúgal, og er þar talið rétt að láta fjárveitinguna standa óbreytta. Ég ætla nú ekkert að þrefa um þetta atriði, hvort þessi fjárveiting sé í fjárl. eða ekki. En mér er kunnugt um sem nm. í utanríkismálanefnd, og ekkert er á móti því að hv. d. viti það, að þrátt fyrir, að ég held ítrekaðar tilraunir til þess að fá viðurkenningu á þessum sendifulltrúum fyrir Ísland á Spáni og Ítalíu, hafa engin svör þaðan fengizt. Hefur ekki verið tekið við sendimönnum frá okkur nema í þeim löndum, þar sem lýðræði ríkir, í Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að vísu höfum við umboðsmann í Danmörku, en Danmörk hefur nú sérstaka aðstöðu, þar sem landið var hertekið gegn mótmælum, án þess um verulega mótstöðu væri að ræða.

Eitt atriði í þessum málum má búast við, að verði mikið rætt í blöðum og ritum, en það er afstaða manna til kostnaðarins af þessum málum. Það er engum vafa bundið, að sjálfsagt er að forðast allt tildur og fordild, sem getur ofboðið fjárhag okkar á þessu sviði og ekki eykur hróður landsins út á við. Ég vil kasta því hér fram, af því að menn verða að hafa það hugfast, að við erum ekki fleiri en svo að íbúatölu, að ef við værum saman komin í einn bæ erlendis, mundi sá bær ekki talinn nema smáborg. Samkv. þeirri staðreynd verðum við að herða okkur upp og horfast í augu við þann sannleika, að hlutfallslega hlýtur að verða margfalt dýrara fyrir okkur en aðrar þjóðir að fara með utanríkismál okkar, svo að við sé unandi. Með tilliti til þessa vill n. vara við of miklu óhófi á þessu sviði, en jafnframt vara við of mikilli sýtingssemi, sem mundi gera starf fulltrúanna í útlöndum gagnslaust. Við verðum að skilja það, að með því að taka utanríkismálin í okkar hendur, sem flestir Íslendingar álíta, að eðlilegt sé, höfum við bundið okkur meir í bagga en jafnvel nokkur önnur þjóð. Við verðum að hafa í huga, að þó að sparsemin sé nauðsynleg, þá er hitt ekki síður nauðsynlegt, að sjá okkur sómasamlega farborða með utanríkisstörfin erlendis, þó að við verðum að leggja á okkur þungar byrðar til að ná settu marki. Ég vil nefna hér dæmi: Setjum svo, að við ætluðum að brúa á, og rannsókn leiddi það í ljós, að brúin mundi kosta 200 þús. kr. Ef við ætluðum að ná settu marki og koma mönnum þurrum fótum yfir ána, yrðum við að taka afleiðingunum af þeirri ósk okkar og leggja fram 200 þús. kr., en ekki aðeins 100 þús. og stoppa í miðri ánni. Mér virðist, að sömu hugsunina mætti heimfæra á meðferð okkar á utanríkismálunum. Við eigum ekki að kasta fé í óhóflegt tildur, en þora að taka afleiðingunum af því stóra spori, sem við viljum stíga, að taka algerlega í okkar hendur utanríkismálin og fara þannig með þau, að þau komi að fullum notum fyrir land og þjóð. Ég held þess vegna, að hin rétta leið í þessum efnum muni vera hinn góði, forni og gullni meðalvegur, þar sem tekið er fullt tillit til allra aðstæðna. Það þýðir lítið, að menn séu að blása sig út af sérstökum sparsemisanda, án þess að vita, að versta sparsemin er sú að leggja fram svo lítið fé til þess, sem framkvæma þarf, að ekki sé hægt að ná takmarkinu, svo að fullur sómi sé að. Það er að kasta peningunum í sjóinn, eins og ég nefndi í dæminu áðan. Við verðum að reyna allt, sem við getum, til þess að geta komið málunum fyrir á sem hagkvæmastan hátt og standa undir þeim þungu höggum, sem við erum sammála um að taka okkur á herðir.