09.04.1941
Efri deild: 34. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

11. mál, utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúar þess erlendis

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vildi aðeins fylgja þessu máli úr hlaði í þessari hv. deild með örfáum orðum.

Strax þegar utanríkismálin voru tekin í hendur íslenzkra stjórnarvalda, var augsýnilegt, að það þurfti bæði að senda út íslenzka fulltrúa og hafa þá meðal erlendra ríkja. Um leið og það var ákveðið, varð augljóst, að setja þurfti þeim ákveðnar reglur um störf og starfssvið m. a. þó að ekki væri af annarri ástæðu en þeirri, að þessir fulltrúar þurftu að framkvæma ákveðna löggerninga, sem urðu að eiga sér stað í íslenzkri löggjöf, til þess að þeir væru fullgildir. Það varð því að ráði að gefa út bráðabirgðal. á s. l. sumri, og lágu þau fyrir Alþ. Frv. þetta hefur gengið í gegnum Nd. og verið breytt þar lítils háttar, sumpart orðfæri og að öðru leyti eftir till. ráðuneytisins um viðauka við sjálft frv., þar sem sett voru ákvæði um utanríkisráðuneytið sjálft hér í Reykjavík. Að öðru leyti er frv. þetta næsta einfalt og auðskiljanlegt, og þarf ég þess vegna ekki að fara út í efni þess eða einstakar greinar, en læt nægja að vísa til þess eins og það liggur fyrir og tel, að óhjákvæmilegt sé, að slíkt mál verði afgr. hér á hv. Alþ.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.