16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil nota tækifærið, vegna þess að hæstv. forsrh, er viðstaddur hér í d., til að leggja fyrir hann sem dómsmrh. þá spurningu, hvort honum sé kunnugt um atvik, sem gerzt hefur í fangahúsinu á Litla-Hrauni. Fangarnir þar hafa sem sé verið lokaðir inni á herbergjum sínum í nokkra daga, án þess að þeim sé kunnugt um ástæðuna. Hallgrímur Hallgrímsson hefur verið fluttur í fangahúsið í Reykjavík, og hafa ekki verið leyfðar heimsóknir til hans. Er ekki heldur kunnugt um ástæðuna að þessu. Ef hæstv. dómsmrh. veit ekki ástæðuna, eru það tilmæli mín, að hann láti rannsaka þetta mál, og komi það í ljós, að hér sé um tilefnislausar aðgerðir að ræða, þá geri hann ráðstafanir til þess, að slíkt handahóf endurtakist ekki.