23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

12. mál, loftferðir

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Hv. frsm. allshn. beindi fyrirspurn til ríkisstj. um, hvort henni væri kunnugt um, að íslenzkir aðilar hefðu haft þau áhrif á brezku herstjórnina, að hún hefði breytt um ákvörðun út af stað undir flugvöllinn. Ég vil upplýsa, að alveg eins og ríkisstj. með samþykki Alþ. einarðlega mótmælti komu brezka herliðsins hingað, hefur ríkisstj. einnig einarðlega mótmælt því, að herinn hefði bækistöðvar í höfuðstað landsins. Í þriðja lagi bar ríkisstj. fram eindregin og rökstudd mótmæli gegn flugvallargerð svo nærri bænum.

Ríkisstj. gerði þetta fyrst bréflega, að ég held, en síðar með mjög ákveðnum tilmælum, eftir því sem ríkisstj. hafði kunnugleika og vit til, um að brezka herliðið héldi sig fjær höfuðstaðnum. Þetta bar engan árangur. Ef menn hafa gaman að því, get ég sagt frá því hér, að brezka herstjórnin færði fram þau rök, að hún teldi höfuðstaðnum betur borgið með flugvöllinn svo nærri honum. Þetta er eins og svo margt annað, sem ríkisstj. hefur deilt um við brezku herstjórnina. Brezku hervöldin leitast við að grípa ekki fram fyrir hendur íslenzkra stjórnarvalda hvað snertir íslenzk málefni. En stj. hefur orðið að lúta í lægra haldi um það, sem viðvíkur hernaðarráðstöfunum. Þetta vona ég, að taki af allan vafa hjá hv. 6. þm. Reykv.