24.02.1941
Efri deild: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

15. mál, hegningarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Hv. þdm. er nú sennilega flestum kunnugt um tilefni þessara lagabreyt., sem gert er ráð fyrir, að gerðar verði á almennum hegningarl., og þess vegna mun ekki vera þörf á að rekja þær ástæður í löngu máli.

Það er eitt af því, sem okkur er mesta nauðsyn eins og nú á stendur, að koma í veg fyrir, að sá erlendi her, sem tekið hefur sér hér bólfestu um skeið, skipti sér meir af íslenzkum málum en brýna nauðsyn ber til. Og þetta frv. er ein af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur talið nauðsynlegt að gera til þess að koma í veg fyrir slík afskipti. Það er vitað mál, að ef því verður ekki afstýrt, að Íslendingar hafi afskipti af hernaðaraðgerðum þeirra þjóða, sem her hefur hér nú, þá leiðir það til þess, að sá her, sem hér dvelur, eða í það minnsta er hætt við því, að það leiði til þess, að hann taki sér fyrir hendur að gera þær ráðstafanir, sem löggjafarvaldið íslenzka og dómsvaldið ættu að gera. Slíkt gæti komið fyrir, ef íslenzk l. ná ekki yfir þau afskipti, sem Íslendingar kynnu að hafa haft í frammi og eru algerlega óviðurkvæmileg eins og nú á stendur. Ég ætla, að þessar skýringar nægi til viðbótar því, sem rætt hefur verið um þetta mál opinberlega, og þau rök, sem hafa verið dregin mjög skýrt fram fyrir setningu þessara 1.

Ég veit ekki, hvort hv. d. óskar eftir að hafa langar umr. um þetta mál, en ég ætla, ef ekki gefst tilefni til annars, að láta þessar röksemdir nægja.

Ég get að vísu bætt því. við, að það hefur verið talið vafamál af hæstaréttardómurum, hvort þær gr., sem gert er ráð fyrir að breyta, nái ekki óbreyttar til þeirra verka, sem verða hegningarverð samkvæmt þessum breyt. En það er tvennt, sem mælir á móti því að reyna á það. Í fyrsta lagi er vafasamt, að þannig yrði litið á, að l. næðu til þeirra verka, sem þessar gr. ákveða, að séu hegningarverðar samkvæmt þessum breyt., og þess vegna er öruggara að hafa þessi ákvæði. Í öðru lagi getur talizt vafasamt að teygja svo langt núgildandi ákvæði hegningarl. eins og þau nú eru, með dómum og fordæmum, sem gerð væru um þann verknað, og því yrði þar með slegið föstu, að gr., eins og þær eru óbreyttar, eigi að gilda um þessi atriði eins og á friðartímum væri. Þess vegna þykir rétt að hafa þessar gr. í 1. á meðan það ástand varir, sem nú er.

Ég vil svo óska eftir, að þessu máli verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr., og það er líklega eðlilegast, að það fari til allshn.