28.03.1941
Neðri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

15. mál, hegningarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Hæstv. forsrh. sagði, að það mætti deila um, hvort réttara væri að gera þessi ákvæði, sem farið er fram á í frv., að viðauka og breyt. á hinum almennu hegningarlögum, — þ. e. heimfæra þau til landráða 88. og 95. gr. —, eða setja um þetta sérstök lög, þar sem vitanlegt væri, að ákvæðin ættu sér ekki tilverurétt nema meðan núverandi aðstæður krefðust. Hann vildi þó ekki fara mikið út í þetta. En ég held það sé einmitt afskaplega þýðingarmikið stefnuatriði, hvor leiðin er þarna farin.

Orðið landráð hefur fasta merkingu, og það er hættulegt fyrir alla réttarvitund almennings og öryggi landsins að rífa niður merking þess, rífa niður þann siðferðisgrundvöll, sem hugtakið er byggt á. Lítum nú jafnframt á þá stundarnauðsyn, sem vera kann á viðurlögum gegn verknaði þeim, sem þetta frv. fjallar um. Ríkisstj., sem við skulum í grundvallaratriðum ætla allt hið bezta, telur nauðsyn á að setja lög til að varna árekstrum og refsa þeim, sem láta í ljós á óhyggilegan hátt þá skiljanlegu andúð, sem menn hljóta að hafa á þeim her, sem rænt hefur og traðkað hlutleysi landsins. Í svo sérstöku tilefni þarf sérstök lög, ekki breyting almennra hegningarl. Og sérstaklega er háskalegt að telja slíkan verknað með landráðum. Þetta er verknaður, sem oft mætti lýsa með orðunum þjóðlegur hugsunarháttur, ást á sjálfstæði, föðurlandsást og særður Íslendingsmetnaður. Eru það landráð? — Verk, sem þurfa ekki að vera sprottin af neinum öðrum hvötum en þessum, eiga samkv. frv. að teljast svívirðileg að almennings áliti, heimfærast til þeirra saka í X. og XI. kafla hegningarl., sem varða missi borgaralegra réttinda, — þau verk eiga að leiða til útskúfunar þeirra í föðurlandi sínu. Þannig á að brjála og snúa við merkingu hugtaksins landráð. — Jafnvel þótt það væri að öllu leyti óskynsamlegt að sýna í orði eða verki andúð sína á þeim, sem hafa rofið hlutleysið og halda áfram að traðka á því, er það brot gegn allri réttarvitund þjóðarinnar að gera þá, sem einmitt gætu stundum verið þjóðhetjur, að landráðamönnum.

Ég hygg það hafi verið ætlunin í fyrstu, að um viðurlög við óheppilegum verknaði af þessu tagi yrðu sett sérstök lög. Það kom meira að segja fram í Mbl., einu aðalstuðningsblaði ríkisstj., að ég hygg í sambandi við það atvik, að ungur maður í stétt, sem er nákomin blaðinu, sparkaði í einkennisbúning, sem í var klæddur einn af liðsforingjum þess hers, sem hafði misboðið þjóðinni með hertökunni. Það getur vel verið, að gegn slíku þurfi lög, og er skammt að leita dæma þess í öðrum herteknum löndum. Í Danmörku hafa t. d. verið gefin út lög, sem miðuðu í þá átt, — en auðvitað sem sérstök lög. Ég vildi í þessu sambandi láta þess getið, að jafnvel hjá betri lögfræðingum bæjarins mun sú skoðun ríkjandi, að mjög erfitt sé að láta slík smávegis afbrot heyra undir landráð. Í sambandi við afbrotamál það, sem nýlega var fyrir hæstarétti og flestir munu kannast við, kom fram viðurkenning bæði frá hálfu verjanda og sækjanda, að þannig væri afstaða þeirra til málsins. Einn hinn bezti lögfræðingur landsins, Pétur Magnússon, komst svo að orði í þessu máli, að ef við hefðum heyrt þær fréttir frá Noregi, að norskir menn hefðu verið handteknir fyrir að hafa gert á hlut þýzka hersins þar í landi og ákærðir af viðkomandi stj. fyrir landráð, hefðum við aðeins þá einu hugmynd um þá stj., að hún væri landráðastj. Svo djúpt tók sá lögfræðingur í árinni. Sá, sem var sækjandinn í málinu, heimtaði þá þyngstu refsingu, sem lög mæla fyrir í slíkum málum, jafnvel þó að hann viðurkenndi, að þetta væru ekki landráð af þeirri réttu tegund. Það er fárið að verða svo hjá lögfræðingum bæjarins, að þeir skapa nú nýtt hugtak í sambandi við þá vandræðanotkun, sem ríkisstj. hefur komið inn á hugtakið landráð, landráð af réttri og rangri tegund. Ég held, að heppilegast væri, að okkar löggjöf væri þannig orðuð, að ekki nema eitt gæti heitið landráð: að svíkja landið undir erlend stjórnarvöld eða erlendan her. En þó að menn sýni andúð sína á því, að erlent setulið ráði hér lögum og lofum, þarf það ekki að vera tengt við landráð, þó að það sé ef til vill óskynsamlegt að láta tilfinningar sínar í ljós.

Ég ætla ekki að svo komnu að fjölyrða frekar um þetta mál, en síðar mun gefast tækifæri til að fara út í þau atriði, sem heppilegt væri að taka upp í sambandi við þetta frv. En ég vildi leggja áherzlu á, að þetta mál verði rætt af alvöru í n., sem fær það til meðferðar, og hún reyndi að finna leiðir, sem ekki brytu í bág við réttindi og sjálfstæðismeðvitund þjóðarinnar. Einnig væri æskilegt að vita, hvort ríkisstj. hefði nokkuð á móti slíku.