08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

15. mál, hegningarlög

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Allshn. hefur athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. Það er til staðfestingar á bráðabirgðal., sem ríkisstj. gaf út 29. jan. síðastl. Hér er um að ræða breyt. á tveim gr. hegningarl., þ. e. a. s. úr þeim kafla þeirra, sem fjallar um landráð.

Sú breyt., sem gerð er á 88. gr., er aðeins í þá átt að gera ákvæðin nákvæmari og fyllri heldur en þau nú eru, með því að gera betri skilgreiningu á þeim verknaði, sem samkvæmt þeirri gr. er talinn refsiverður. Auk þess er í lok þessarar gr. veitt heimild til þess, ef brot eru smávægileg, að beita aðeins sektarhegningu.

95. gr. hegningarl. er breytt með 2. gr. frv. Fyrri hl. þeirrar gr. er að mestu leyti hinn sami og áður var. Í seinni málsgr. 2. gr. frv. er hins vegar nokkur breyt. Samkvæmt hegningarl., eins og þau hafa verið, hefur ekki verið talið rétt að höfða mál út af þeim brotum, sem gert er ráð fyrir að refsa fyrir samkvæmt þessari hegningarlagagr., nema það erlenda ríki, sem brotið er gegn, krefjist þess. Hér í frv. er aftur á móti gert ráð fyrir því, að hið opinbera ákæruvald sjái um það í hvert skipti og ákveði um það, hvenær mál skuli höfða. Auk þess er bætt við í 2. málsgr. ákvæðum um það, ef maður er smánaður opinberlega, eða hafðar í frammi móðganir við starfsmann erlends ríkis, sem staddur er hér á landi. Ég hygg, að engum blöðum sé um það að fletta eins og nú standa sakir fyrir okkur Íslendinga, þar sem við erum herteknir af öðrum aðila í styrjöldinni, sem nú geisar (og lýstir í raun og veru af hinum aðilanum réttdræpir bæði á sjó og landi), þá sé full ástæða fyrir okkur til þess að hafa l. okkar sem nákvæmust og sem fyllst ákvæði um þau brot, sem geta leitt til þess að setja sjálfstæði þjóðarinnar í hættu. En það er sameiginlegt með ákvæðum beggja þessara gr. til breyt. á hegningarl., sem hér er um að ræða. Sérstaklega er ástæða til að benda á, að ástæða er til þess, að nokkuð ríkt sé litið eftir því af íslenzkum stjórnarvöldum, að ekki sé að óþörfu verið að bekkjast til við erlenda herinn, sem í landinu er, og espa hann upp til þess að taka í sínar hendur lögregluvald og dómsvald í landinu, sem er einn af hyrningarsteinum fullveldis okkar að hafa hvort tveggja þetta vald, og þarf ég ekki að nefna dæmi til þess, að slíkt hefur, því miður, orðið afleiðing af því, að ekki hafa verið í l. ákvæði um þessa hluti.

En það er ekki nóg að ganga frá vönduðum ákvæðum í þessa átt, heldur verður líka að ætlast til, að stjórnarvöldin, og þá fyrst og fremst ákæruvaldið, beiti þeim ákvæðum, sem Alþ. samþ. að það fái, til þess að hindra þessi hættulegu brot.