08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

15. mál, hegningarlög

Ísleifur Högnason:

Síðan þetta frv. var lagt fyrir þingið, hafa þeir atburðir gerzt, sem ég dreg ekki í efa, að hefðu orsakað það, að ef þetta frv. hefði verið orðið að l. á þeim tíma, hefði fjöldi manns, a. m. k. hér í Rvík, verið orðinn brotlegur við þessi 1. svo freklega hefur verið gengið á rétt Íslendinga með handtöku og hernámi 3 blaðamanna Þjóðviljans fyrir skemmstu. Ég sé ekki, hvernig Alþ. getur viljað láta taka sig alvarlega með því að samþ. l. sem þessi. Það á beinlínis með þessum 1. að láta í ljós ást sína á útlendu valdi. En ef landið er hernumið og þessir óboðnu gestir, sem í landinu eru, sýna ofbeldi, þá er ómögulegt annað en að menn með mannlegar tilfinningar láti í ljós andúð, andstyggð og jafnvel móðganir við þá. Og hver slíkur maður er brotlegur við 1. eftir þessu frv. og skal sæta fangelsishegningu allt að 6 árum. Það er mjög loðið og undir ákæruvaldinu komið, hvernig þessu er beitt, því að í 1. gr. frv. er sagt svo, með leyfi hæstv. forseta : „Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenzka ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum. Ef brot þykir mjög smávægilegt, má beita sektahegningu.“ Það er sem sagt ákæruvaldið, sem hefur alveg óbundnar hendur um að leiða hvern mann fyrir lög og dóm, sem því sýnist, ef hann hefur á einhvern hátt móðgað einhvern útlending, sem hér er óvelkominn og í óþökk landsmanna. — Sama máli gegnir um 2. gr.

Annars ætla ég ekki að fjölyrða um málið. Það var nokkuð rætt við l. umr. Ég verð þó að segja að Alþ. mun í framtíðinni gera sig alveg ógleymanlegt, ef það samþ. á þessum tíma og eftir þá atburði, sem hér hafa skeð, þær breyt., sem hér liggja fyrir, því að þær þýða ekkert annað en það, að þjóðin verði að beygja sig fyrir hvers konar ofbeldi og má ekki láta í ljós andúð sína gegn því, en beri í þess stað að hlíta í einu og öllu erlendri yfirdrottnun. Hv. frsm. sagði, að nauðsynlegt væri að gera þetta, til þess að erlent vald gripi ekki fram í fyrir dómstólunum og lögreglunni. Ef hæstv. Alþ. á að þóknast þannig erlendum innrásarher, sem fótum treður okkar þjóðernislega rétt, þá væri okkur nær að fá öll völdin í hendur þess ríkis, sem her hefur hér, til þess að æstir Íslendingar stæðu ekki að þeim föðurlandssvikum að þrjózkast gegn þessu valdi.