08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

15. mál, hegningarlög

Garðar Þorsteinsson:

Mér er ekki alveg ljóst, hvað hæstv. utanrmrh. meinar. Það voru 1. til um þetta áður en bráðabirgðal. voru sett, en eftir þeim átti ekki að höfða mál út af brotum, sem hér er um að ræða, nema erlent ríki krefðist þess. Og þar sem það ákvæði hefur verið svo lengi í l., hvers vegna var þá verið að setja þessi bráðabirgðal. um sama efni og 1., sem áður giltu? Það, sem hér vakti fyrir þjóðstjórninni og ég er henni sammála um, var það, að Íslendingar áttu á hættu, að blöð birtu greinar, sem væru móðgandi fyrir einhverja þjóð eða þjóðhöfðingja, hver sem sú þjóð væri. Það, sem hér var á ferð með þessum bráðabirgðal., var að girða fyrir þá hættu, að erlent ríki, sem hlut á hér sérstaklega að máli, notaði sitt vald til þess að taka í sínar hendur einhver þau málefni, sem annars heyrðu Íslendingum til. Það, sem hér var á ferð, var, að ríkisstj. átti ekki lengur að þurfa að fá kröfu frá erlendu ríki til þess að hefjast handa um málshöfðun út af brotum, sem hér ræðir um. Ríkisstj. gat eftir bráðabirgðal. höfðað mál, ef hún áleit það, sem í blöðum væri birt, móðgandi fyrir erlent ríki. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. látið undir höfuð leggjast. Ég veit ekki, hvers vegna hún hófst ekki handa, þegar blaðaskrif gengu svo langt, að hún gat átt það á hættu, að kannske næsta dag eða daginn þar á eftir yrði gripið inn í af erlendu valdi.