08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

15. mál, hegningarlög

Ísleifur Högnason:

Mér þykir ekki fullupplýst, hvort það er rétt, sem hv. 7. landsk. þm. bar fram, hvort ríkisstj. hefði vitað um það, sem til stóð um handtökur íslenzkra borgara. Mér þykir líklegt, að hv. þm. beri það fram, hvað hann hefur fyrir sér í þessu efni, til þess að þjóðin fái að vita um það.

Um þessar aths. og yfirlýsingu, sem hæstv. atvmrh. gerði um blaðið Þjóðviljann, er ekki annað að segja en það, að þær sanna það, sem vitanlegt var áður, að atvmrh. hefur nákvæmlega sömu afstöðu og Bretinn gagnvart handtökunum og banni við útkomu Þjóðviljans. Hann telur blaðið saurblað, og að sjálfsögðu hefur honum ekki verið það á móti skapi, að mennirnir, sem að því stóðu, voru handteknir og blaðið bannað, enda hafa engin mótmæli komið gegn því af hans hálfu, nema síður sé. Þegar hann átti kost á að mótmæla aðgerðum brezku herstjórnarinnar, þá labbaði hann sig út af fundi til þess að koma ekki nálægt málinu. Annað hef ég ekki vitað um hans afstöðu, nema hvað hann nú með ókvæðisorðum gegn blaðinu dregur úr þeim mótmælum, sem hæstv. Alþ. hefur gert gegn banninu við útkomu þess. Þessi ummæli hans nú um blaðið staðfesta það, að mótmælin séu gerð gegn hans vilja og gefur grun um það, að honum sé það ekki eins leitt og hann lætur, að blaðið Þjóðviljinn var bannað og ritstjórar þess fluttir burt.