08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

15. mál, hegningarlög

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef ekki lagt mig niður við að svara kommúnistum hér í hv. þd. né utan þings, og ég skal ekki heldur gera nú ranglega undanþágu undan þeirri gullvægu reglu. Þeir hafa eins konar einkarétt til svívirðinga, kommúnistarnir hér í hv. d., og mega hafa hann fyrir mér. En það er hróplegur misskilningur, ef nokkur álítur, að mótmæli þau, sem ríkisstj. ber auðvitað fram gegn handtöku íslenzks alþm., sé einhver syndakvittun fyrir það saurblað, sem hann stóð fyrir. Og dæmalaus hugsunargrautur er það, ef hv. þm. heldur, að afskiptaleysi ríkisstj. um það að draga blaðið fyrir lög og dóm sé nokkur sönnun um sakleysi blaðsins. Það má vel vera, að þolinmæði mín hefði verið þrotin við þetta blað, og það fyrir nokkru, ef ég hefði lesið það, en ég hef frétt úr því ýmislegt, sem mér hefur verið borið, og ég álít, að það hafi verið svo hundómerkilegt, að ég held, að enginn hafi tekið mark á því af þeim mönnum, sem ég tek nokkurt mark á. Ég tel þjóðina svo þroskaða, að ég álít, að þær svívirðingar og álygar, sem bornar hafa verið fram í Þjóðviljanum, hafi haft lítil áhrif. Ég les ekki blöð sósíalista og vil ekki stefna þeim. Ég er á móti því, að erlendir menn ráði á íslenzku heimili, og þess vegna er ég mjög á móti gerðum brezku herstjórnarinnar í að banna útkomu Þjóðviljans, og auk þess af því að ég tel til bóta, að slíkt blað komi út, því að ég held, að það haldi mönnum frá því að fylla hóp kommúnista.

Hitt er annað mál, að ég mótmæli því eindregið, að erlent vald handtaki íslenzkan alþm., hversu auðvirðilegur sem hann er.