08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

15. mál, hegningarlög

Garðar Þorsteinsson:

Ég vil segja það, að það er byggt á nokkrum misskilningi, er tveir hæstv. ráðh. segja á þá leið, að ég hafi verið að dylgja um, að þessir menn hafi verið handteknir. Þessi fyrirspurn, sem ég gerði nú, var samhljóða fyrirspurn, sem fram var borin fyrir nokkrum dögum. Ég spurði, hvort ástæða hefði verið til að ætla, eftir viðtali við brezku herstjórnina, að brezka herstjórnin tæki til sinna ráða, ef íslenzka ríkisstj. tæki ekki í taumana. Ég vissi, að brezki sendiherrann lýsti yfir, að þetta mundi verða gert, ekki að ríkisstj. vissi, að það ætti að handtaka þessa menn, heldur að það ætti að banna Þjóðviljann. Sendiherrann sagði, að brezka setuliðið mundi endanlega taka til sinna ráða. (Atvmrh.: Hver er heimildin fyrir þessu?) Ég er ekki skyldugur til að geta um það hér. Það er enginn vafi á því, að það féllu einhver orð um það af hálfu sendiherrans, svo að bannið við blaðinu gat ekki komið aftan að hæstv. ríkisstj. (Atvmrh.: Hv. þm. fer með rangt mál.)

Það, sem er misskilningur hjá hæstv. ríkisstj., en ekki mér, er, að það er ekki aðalatriðið, hvaða blað átti í hlut, heldur hvort brezka herstjórnin skipti sér af íslenzkum málefnum. Og það þykir mér ákaflega undarlegt, ef ekki mátti beita þessum ákvæðum bráðabirgðal., sem sett voru í vetur um þetta atriði, fyrr. Mótmæli hæstv. Alþ. voru ekki bundin eingöngu við handtöku íslenzks alþm., heldur líka gegn því að gera blað upptækt, jafnvel svo ómerkilegt blað sem Þjóðviljinn var. Og mér skilst, að hæstv. atvmrh. hafi samþ. það. Og hæstv. atvmrh. var að tala um, að af því að blaðið var svo ómerkilegt, hafi það ekki skipt svo miklu máli, þó að það væri látið afskiptalaust. Ég er sammála um það, að blaðið hafi verið ómerkilegt. En það skiptir ekki mestu máli í þessu sambandi, og það var ekki afsökun fyrir ríkisstj. um að grípa ekki fram í, að blaðið væri ómerkilegt. Ég er samþ. þessu frv., sem gefur ríkisstj. nógu víðtækt vald til þess að varna því. að nokkrir ófyrirleitnir menn í ræðu eða riti verði til þess að kalla á aðgerðir erlendrar herstjórnar. En ég álít, að ríkisstj. hafi haft fullkomna ástæðu til þess að grípa inn í fyrir þessu blaði, og að það sé meginmisskilningur hjá hæstv. ríkisstj., að það hafi ekki tekið því, af því að blaðið væri ómerkilegt.

Ádeilur á íslenzka embættismenn var innanríkismál, sem erlent hervald skipti sér ekki af. En þegar ráðizt er á erlent setulið, sem hér er, er allt öðru máli að gegna, og þegar svo var komið, mátti búast við erlendri íhlutun, og þá átti ríkisstj. að beita þessu valdi, sem þessi 1. veita. Ég er samþ. frv. En ég ætla fyrir mitt leyti, að ef þetta vald, sem ríkisstj. gaf sér með bráðabirgðal., hefði verið notað í tíma, hefði það varnað því, að þetta hefði skeð, að íslenzkir menn voru handteknir.