08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

15. mál, hegningarlög

Ísleifur Högnason:

Ég gekk þess ekki dulinn, að hæstv. atvmrh. þóttist viss um, að hann hefði á réttu að standa, og víst er um það, að honum hefur sjaldan tekizt betur upp en nú í því að ausa yfir mig og mína flokksmenn fúkyrðum og skömmum. En samræmið og rökin í þessari ádeilu hans voru ekki alveg eins haldgóð. Hæstv. ráðh. sagði, að hann læsi aldrei Þjóðviljann, en jafnframt sagði hann, að Þjóðviljinn væri langómerkilegasta blað, sem hann hefði þekkt um sína daga. Ég veit ekki, hvernig fullyrðingar eins og þær, sem ráðh. fór með, fá staðizt, a. m. k. fyrir mönnum, sem nokkuð hugsa eða taka tillit til raka. (Atvmrh.: Ég les aldrei þingræður ÍslH). Það er sama, hvaða heimildir hæstv. ráðh. hefur fyrir sér, — blöð, sem hann ekki les, getur hann ekki heldur dæmt ómerkileg nema hann vilji gerast sleggjudómari. Þannig er allt þetta, sem hann hafði svo mikið fyrir að ræða, fallið dautt og ómerkt. En það, sem athugavert er í þessu sambandi, eru upplýsingar hv. 7. landsk. um það, að Bretar hefðu gert ríkisstj. aðvart um það, að skrif Þjóðviljans væru á . þann veg, að þeir mundu stöðva útkomu blaðsins, ef ríkisstj. gerði ekkert til þess að hindra slík skrif. Það er kunnugt, að ritstjóra Þjóðviljans var ekki gert aðvart, enda þótt það sé vitað, að ríkisstj. átti samtöl við brezku hernaðaryfirvöldin um þessi mál. Blaðinu var því ekki kunnugt um það, að hér vær í ekki leyfilegt að koma með gagnrýni, eins og hingað til hefur átt sér stað í Englandi sjálfu, að blöðin hafa gagnrýnt brezk stjórnarvöld, og þó að nú sé farið að þrengja mjög frelsi blaðanna í Englandi, þá álít ég, að íslenzka stj. þurfi ekki að draga dám af brezku stj. í því efni. Ég, er í engum vafa um það, að ef ríkisstj. hefði gert Þjóðviljanum aðvart, þá hefði náðst samkomulag um það, að blaðið stillti orðum sínum svo í hóf, að Bretar mættu við una. Ég get vel skilið það, að hv. 7. landsk. og hæstv. atvmrh. séu sammála í sinni andstöðu og þeir vilji hafa um þetta sem stærst orð, ef það nægði til þess að kveða niður öll rök. En orð þeirra falla dauð og ómerk jafnótt og þau eru töluð.