08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

15. mál, hegningarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vil endurtaka hér, og það er, að ríkisstj. var ekki kunnugt um það, að ritstjóri Þjóðviljans mundi verða tekinn fastur. Það, sem ég hef upplýst, er það, að kvartað hefur verið undan skrifum Þjóðviljans. Skrif Þjóðviljans í sambandi við verkfallið í vetur voru refsiverð samkvæmt íslenzkum l., þess vegna höfðaði ríkisstj. mál gegn ritstjórum blaðsins. Það var þá kvartað undan því af herstjórninni, að blað hér á landi tæki það upp að eggja herinn til þess að skipta sér af íslenzku verkfalli. Hins vegar kom það atriði fram hér í d., að ríkisstj. hefði átt að fara til blaðsins og óska eftir því, að það hagaði sér vel. Þar til er því að svara, að ég óskaði eftir því við blöðin í byrjun þessarar styrjaldar, að þau skrifuðu öðruvísi um erlend mál meðan á stríðinu stæði.

Þetta var tekið þannig upp af Þjóðviljanum, að um mig voru skrifaðar persónulegar skammir. En það er rétt, að ágreiningur hefur verið um það, hvernig eigi að beita íslenzkum l. gagnvart blaðaskrifum, en ég vil þó segja það, að þessi l. taka fyrst og fremst til þess verknaðar, sem einstakir menn fremja gagnvart herstj. og hernaðaraðgerðum. En það mál er vitanlega talsvert annað brot á íslenzkum 1. Það hefur verið litið svo á, að ekki bæri að nota l. á nokkurn hátt til þess að þröngva blöðunum til hlýðni. Þetta er atriði, sem eðlilegt er, að skiptar skoðanir séu um. En ég er á móti því, að sú venja verði látin gilda áfram, að blöðin verði látin afskiptalaus. En um þetta er ekki hægt að taka ákvarðanir nema með samkomulagi innan ríkisstj.