20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

6. mál, happadrætti

Gísli Guðmundsson:

Það er engin furða, þó að tekið sé til máls um þetta frv., en hins vegar geri ég ráð fyrir því, að þær umr. beri e. t. v. ekki mikinn árangur. Þetta happdrættismál virðist vera komið svo langt áleiðis, að því verði ekki mikið breytt héðan af. Það virðist varla hafa verið knýjandi þörf á að gefa út þessi bráðabirgðal. svo skömmu fyrir þing. Sömuleiðis hef ég ekki sannfærzt um, að sú tekjuaukning, sem happdrættið ætlar að fá með hækkun miðanna, hafi verið nauðsynleg. Ég býst við, að kostnaður við happdrættið hljóti að aukast eitthvað, en hins vegar efast ég um, að sú hækkun verði jafnmikil og þarna er gert ráð fyrir, enda lagði hæstv. fjmrh. ekki fram neinn útreikning því viðvíkjandi. Að vísu hefur hæstv. ráðh. nokkuð til síns máls, hvað snertir útgáfu þessara bráðabirgðal. Ef þau hefðu ekki verið gefin út, var ekki hægt að tilkynna breyt. með nægum fyrirvara, áður en sala miðanna átti að hefjast eftir venju. En háskólinn hefur leyfi til að reka happdrætti enn um allmörg ár, og hér skipti ekki svo miklu máli um eitt ár, að nauðsynlega þyrfti að gefa út bráðabirgðal. um þetta efni.

Annars sé ég ekki, hvernig átti að skilja ummæli hæstv. fjmrh. viðvíkjandi konungsvaldi í þessu sambandi. Hann sagði, að konungsvaldið, sem nú er í höndum fimm manna hérlendis, gæti ákveðið að gera eitthvað, sem ekki væri vilji hlutaðeigandi ráðherra. Ég skildi hæstv. ráðh. svo. (Fjmrh.: Alveg þveröfugt.) Ég var ekki viss um, hvort hann sjálfur hefði verið á móti þessum bráðabirgðal. eða ekki.

Þau mistök, sem fyrst og fremst hafa orðið í þessu máli, eru þau, að þetta háskólahús, sem byggt hefur verið fyrir ágóðann af happdrættinu, er óhæfilega stórt og engan veginn miðað við þarfir háskólans, heldur eitthvað annað. Mun það koma í ljós í nánustu framtíð, að ekki verður þörf á svo stóru húsi, og þess vegna hefur byggingarkostnaðurinn orðið meiri en nauðsynlegt var. Má segja, að ýmsir eigi sök á þessum málum, bæði þeir, sem fyrir byggingunni standa, og eins hæstv. ríkisstj. Ég hygg, að vel hefði mátt koma í veg fyrir þessi mistök áður en of seint var orðið. Ég mun ekki eyða fleiri orðum að sinni um þetta, og það, sem gert er, er gert. En ég vil beina þeirri ósk til n., sem fær málið til meðferðar, að hún kynni sér byggingarmál háskólans frá upphafi og fái upplýst, til hvers á að nota þá peninga, sem háskólinn á að fá á næstu árum fyrir happdrættið samkv. l. þessum. Það er krafa frá þingsins hálfu, að allar upplýsingar um þetta mál liggi fyrir, og ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi af þingmönnum, ef þeir afgreiða frv. án þess að hafa kynnt sér málið til hlítar. Yfirleitt hefur reynslan sýnt, bæði hvað snertir byggingarmál háskólans og ýmis önnur, að það er mjög varhugaverð leið, sem Alþ. hefur farið upp á síðkastið, með því að fá hinum og öðrum aðilum í hendur tekjustofnanir þess opinbera í því augnamiði, að þeir standi fyrir framkvæmdum. En síðan er allt látið afskiptalaust, hversu sem á horfist. Þeim finnst þeir vera komnir í gullnámu, þar sem þeim sé óhætt að ausa úr svo lengi sem þá lystir til að fullnægja því, sem þeir kalla hugsjónir. Ég held, að þetta mál sýni berlega, að varhugavert sé að fá einstaklingum og stofnunum í hendur ótakmörkuð umráð að slíkum tekjustofnunum sem hér er um að ræða. Þó að oft sé á það bent og stundum með réttu, að ríkisstj. verji ekki fé alltaf sem bezt, hygg ég, að hér muni hennar ráð duga betur en einstakra n. eða stofnana. Ég mun ekki ræða mál þetta meira nú, enda þýðingarlaust á þessu stigi málsins, en beini ummælum mínum til n., sem fær málið til meðferðar.