20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

6. mál, happadrætti

Garðar Þorsteinsson:

Ég get fallizt á það, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að lengi mætti deila um, hvort nauðsynlegt hefði verið að gefa út þessi bráðabirgðal. En mér finnst ekki geta leikið vafi á því, að ekki hefði átt að gefa þau út. Það er að vísu rétt hjá hæstv. fjmrh., að happdrættið hefði ekki getað notað þessa hækkunarheimild á þessu ári, ef hún hefði fyrst átt að verða samþykkt á Alþingi, en lítið hefði sakað, þó að dregizt hefði um ár að koma henni í framkvæmd. En með þessum 1. hefur ríkisstj. bundið hendur Alþ., og erfitt mun vera að fella niður heimildina úr því sem komið er.

Ég get hins vegar ekki fallizt á, að hækkun á rekstrarkostnaði við happdrættið hafi valdið því, að l. þessi hafi verið gefin út, allra sízt sá liður, sem hæstv. fjmrh. talaði um, en það voru umboðslaunin. Hæstv. ráðh. gleymdi í sinni röksemdafærslu veigamesta atriðinu, sem er að hækkun umboðslaunanna kemur af sjálfu sér með aukinni sölu. Happdrætti háskólans hefur mjög aukið sölu sína árlega af þeim ástæðum, að fyrstu kaupendurnir halda áfram með sína miða og auk þess bætist árlega við mikill fjöldi nýrra kaupenda. Má og gera ráð fyrir, að á þessu ári verði mikil aukning á sölu happdrættismiða vegna betri fjárhagslegrar afkomu almennings. En aukin sala mundi gefa umboðsmönnum meiri tekjur, þó að umboðslaunin væru þau sömu. Einnig er víst, að ágóðinn af happdrættinu er það mikill, að það gat ákaflega vel lagt á sig einhver aukin útgjöld vegna aukinnar dýrtíðar, einkum þegar gera má ráð fyrir, að ágóðinn vaxi ennþá meir. Það er sannað mál, að þeir menn, sem standa að stjórn happdrættisins, og þeir, sem séð hafa um byggingu háskólans, hafa lagt fram svo mikið fé til ýmissa nauðsynlegra og ekki nauðsynlegra hluta í sambandi við byggingu háskólans, að hann getur ekki staðið undir útgjöldunum, nema að fá auknar tekjur. Þar að auki skuldar þessi stofnun nú um kr. 900 þús. Ég hygg, að menn almennt mundu ekki fara þannig með sitt eigið fé. Samt sem áður líður ekki langur tími milli þess sem reynt er að sannfæra almenning í blöðum landsins um, að þessi stofnun verði að kaupa fasteignir, sem nemur millj. króna, til þess að koma sínu eigin fé í varanleg verðmæti. Mér finnst þetta rekast nokkuð mikið á.

Svo var annað, sem mætti gjarnan minnast á í þessu sambandi, en það snertir hæstv. fjmrh. sérstaklega, bæði sem fjármálaráðherra og sem einn stjórnanda þjóðleikhússins. Gæti hann ekki sem slíkur séð um, að sú stofnun fengi a. m. k. það mikið fé, að hægt væri að koma í veg fyrir, að hún eyðilegðist frá því, sem nú er? Það er framtíðarhugsun vor, að þetta hús starfi bæði sem leikhús og kvikmyndahús, og munu tekjur af kvikmyndastarfseminni nægja til þess að halda uppi leikstarfsemi hér í bænum. Mér finnst eðlilegt, að ágóðinn af happdrættinu yrði að einhverju leyti látinn renna til þjóðleikhússins, og gæti háskólinn vel séð af hinni nýju hækkun á miðunum til þess. Skemmtanaskatturinn, sem átti að fara til byggingar þjóðleikhússins, hefur allur verið látinn renna í ríkissjóð, þar sem hann þótti ekki mega missa þær tekjur. Nú mætti eins vel segja, að ríkissjóður mætti ekki missa þær tekjur, sem happdrættið gefur af sér, en þarna lokar ríkisstj. öðru auganu, sér ekki þjóðleikhúsið, og einblínir á háskólann. Það virðist óeðlilegt, að í höfuðstað landsins skuli vera 2 byggingar, sem ekki er hægt að ljúka við, í staðinn fyrir að taka þá byggingu fyrst, sem fyrr var byrjað á, og fullgera hana. Nú er þjóðleikhúsið látið standa undir skemmdum, en þúsundum og jafnvel milljónum króna varið í nýja byggingu, þar sem það er á valdi nokkurra manna, hvernig fénu er varið, án íhlutunar Alþ. eða ríkisstj. Mér er kunnugt um, að miklu meira fé hefur verið sóað í byggingu háskólans en þörf var á. T. d. voru smíðuð húsgögn í einn salinn eftir teikningu, en þegar til kom, gátu þau ekki rúmazt þar. Ég býst við, að slíkt athæfi mundi fá harða dóma, ef einhver einstaklingur keypti svo marga stóla í íbúð sína, að hann yrði að hafa þá hvern uppi á öðrum.

Ég vildi þess vegna óska þess, að hæstv. fjmrh. eða sú n., sem um málið fjallar, hlutaðist til um, að inn í Alþ. kæmu reikningar háskólans. Þeir liggja hjá húsameistara ríkisins, eftir því sem Pétur Sigurðsson háskólaritari hefur sagt mér. Svo mikið fé er nú komið úr vasa landsmanna til þessa fyrirtækis, að hið opinbera og hver einstaklingur á kröfu til þess að sjá þessa reikninga. Það er fyrirfram erfitt að fullyrða, að fé þessu hafi ekki verið rétt ráðstafað, án þess að sjá reikningana. Öllum er kunnugt um, að ýmsar breyt. hafa verið gerðar á þessari byggingu, sem hafa kostað stórfé, en varhugavert er að treysta svo til lengdar á örlyndi Alþ., jafnvel þó að háskólinn eigi hér hlut að máli. Það er ekkert undarlegt, þó að upp komi raddir um, að til séu í landinu önnur menningarfyrirtæki, sem eigi líka siðferðilegan rétt á þeim skatti, sem almenningur leggur jafnfúslega á sig og reynslan hefur sýnt með happdrættinu. Auk þess er vítavert að láta menn þá, sem standa að þessari dýru byggingu, alveg afskiptalausa um gerðir sínar, og það stendur engum nær en ríkisstj. að takmarka eyðslu þeirra. Það var líka hennar skylda að gefa ekki út bráðabirgðal. og bæta þannig gráu ofan á svart með því að gefa þessum mönnum ennþá meira vald, þar sem víssa er fengin fyrir því, að þeim mun meiri tekjur, sem háskólinn hefur, þess meiri er eyðslan hjá forráðamönnum hans.