20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

6. mál, happadrætti

Bergur Jónsson:

Ég álít ekki ástæðu til að halda því fram, að háskólinn þurfi á þessari hækkun að halda vegna dýrtíðar og verðfalls peninga o. s. frv. En úr því búið er á annað borð að koma þessu húsi háskólans upp, þá er þessi ráðstöfun, að láta háskólann fá í hendur meira fé til rekstrar, vitanlega ekki annað en að losa ríkissjóð við ýmis útgjöld, sem hann annars þyrfti að bera, þó að ég hins vegar viti ekki, hvernig því er varið.

Ég hef heyrt því fleygt hér, að nær hefði verið að ljúka við þjóðleikhúsið heldur en að láta háskólann hafa þennan tekjustofn óskiptan. En ég held, að það hefði verið dálítið óheppilegt fyrir okkur, ef við hefðum verið komnir lengra með það áður en hernámið fór fram, þar sem það nú hefur verið tekið til vörugeymslu fyrir hermenn þá, sem hingað hafa komið. Óvíst er, að þeir hefðu sleppt því, þó að það hefði verið lengra komið, til þess að hægt væri að nota það til leikstarfsemi, sem ég er einnig í nokkrum vafa um, að rétt sé fyrir okkur að gera. Við höfum yfirleitt ekki aðstöðu til þess, eða a. m. k. miklu síður heldur en aðrar miklu ríkari þjóðir, sem stynja undir leikhúsastarfsemi sinni, að fara að koma upp stórum leikhúsum og reka þau þannig, að sæmilegt væri fyrir leikarana. Með öðrum orðum, ég mun heldur hallast að því, að háskólinn fái þennan tekjuauka heldur en þjóðleikhúsið. Ég tel, að ástæðan sé enn meiri til þess nú, þar sem vitað er, að fjöldi stúdenta,

sem gat stundað nám erlendis, verður nú að láta sér nægja að stunda það heima.

Ég er ekki í vafa um, að það verður erfitt verk að reka þessa stóru byggingu, sem háskólinn hefur eignazt. En hins vegar er hún okkur tvímælalaust til sóma. Það hafa komið fram ummæli erlendra manna í þá átt, bæði í blöðum og munnlega.

Mér finnst ekki heppilegt, ef það væri svo um hv. 7. landsk., að hann væri í kapphlaupi við háskólann um fasteignakaup, því að það er alltaf dálítið óviðkunnanlegt, að menn séu að ræða um það, sem snertir þá sjálfa. (GÞ: Ég vil taka vel upp ummæli hv. þm. og viðurkenna, að þetta kapphlaup hefur verið óheppilegt af háskólans hendi, en hv. þm. veit sjálfur, hvort þetta kapphlaup var við mig eða ekki. Það var við Búnaðarbankann, en ekki mig.) Það væri hægt að spyrja bankastjóra Búnaðarbankans að því við tækifæri, hvort hann hafi verið svo ákafur í að ná eignarhaldi á þessu húsi, sem um er að ræða, og sem ég veit ekki betur en að hv. 7. landsk. reki starfsemi í. Og ég býst við. að Búnaðarbankinn hafi alveg jafnt eða ekki síður ráð á. því, ef hann þyrfti með, að fá lán til húsakaupa heldur en háskólinn. En auðvitað lít ég svo á, að það sé ekkert við því að segja, þó að hafður sé einkarekstur á starfsemi þeirri, sem rekin er í húsinu.

En sem sagt, mér er ekki sama, hvort háskólinn, sem búinn er að reisa myndarlegt hús, á í framtíðinni að vera betlistofnun, sem býr við fjárhagslega örðugleika, eða hvort að honum verður búið þannig, að hægt sé að reka hann, svo að sómasamlegt sé fyrir okkur Íslendinga. Þess vegna mun ég leggja heldur liðsyrði þeim tillögum, sem fram eru bornar í því skyni að reyna að hjálpa þessari stofnun.

Ég get tekið það fram fyrir mig, að þegar ég var í háskólanum, þá var mikið barizt fyrir því að koma upp stúdentaheimili, sem var náttúrlega mjög þarft, en ég og annar maður lögðum áherzlu á, að fyrst og fremst væri háskólinn reistur. Þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að ég gleðjist yfir því, að svo sé komið, að háskólinn þurfi ekki að búa í kjallaraholu, þannig að erlendir menn, sem sjái húsakynnin, geti ekki gert sér grein fyrir, að þar sé um háskóla að ræða.