20.02.1941
Neðri deild: 4. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

6. mál, happadrætti

Bergur Jónsson:

Ég veit, að hv. þm. N.-Þ. muni koma auga á háskólabygginguna, ef hann fer hér suður á Melana, og munu honum þá varla detta í hug nýju fötin keisarans. — Annars ætlaði ég að svara hv. 7. landsk. Hann sagði, að ég hefði farið húsa- eða fasteignavillt, er ég sagði, að mér hefði þótt skemmtilegra, að einhver annar en hann hefði minnzt á kapphlaup um fasteignir í sambandi við háskólann. Það getur verið, að ég hafi farið fasteignavillt. En hér er um tvær fasteignir að ræða, tvö bíó, og hv. þm. er eini bíóeigandinn hér á þingi. Hefði því verið smekklegra af honum að fara ekki að tala um þetta.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að ekki hefði verið gott að fylgjast með kostnaðinum af háskólabyggingunni, og er það rétt. En þó að við gerðum kröfu til þess að fá að sjá reikningana, gæti það ekki breytt þeim kostnaði, sem þegar er orðinn af húsinu. Og ég vil taka það fram að lokum, að ég vil ekki láta háskólabygginguna verða að neinni ölmusubyggingu. Ég ber hlýrri hug til háskólans en svo. Vildi ég á allan hátt geta stutt að því, að hann yrði sem fyrst fullgerður, og því mun ég ganga með hóflegum fjáröflunarleiðum í því skyni að tryggja það, að ekki fari fyrir honum eins og þjóðleikhúsinu, sem nú er haft fyrir birgðageymslu eða eitthvað þaðan af verra