12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

6. mál, happadrætti

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Fjhn. hefur athugað þetta frv., sem er breyt. á l. um stofnun happdrættis fyrir Ísland og er samhljóða bráðabirgðal., sem gefin voru út 16. jan. þessa árs og fela það í sér að afla fjár til að standast aukinn kostnað af rekstri happdrættisins og greiða skuldir af byggingu háskólans.

Eins og nál. ber með sér, hefur verð happdrættismiðanna verið hækkað um, og sagt er, að það sé vegna aukins kostnaðar við rekstur happdrættis háskólans. N. hefur kvatt rektor háskólans á fund til sín, og lagði hann þar fram bréf, er n. hefur svo látið birta í nál. Þar kemur í ljós, að byggingarkostnaður háskólans hefur orðið sem næst tveim millj. kr., og er það allmiklu meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Stafar það mikið af því, að byggingarkostnaður jókst, þegar verið var að fullgera bygginguna, vegna þess að byggingunni var hraðað meira en ætlazt var til í upphafi, þegar fyrirsjáanlegt var, að byggingarkostnaður mundi aukast vegna dýrtíðar, ef dregið yrði að ljúka við bygginguna. Þar af leiðandi hefur þörf á tekjum af happdrættinu orðið meiri en áður til þess að geta losað háskólann úr skuldum.

Skuldir, sem nú hvíla á háskólanum vegna byggingarinnar, eru 875 þús. kr.

N. hefur getað fallizt á, eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í málinu, að leggja til, að frv. verði samþ., þótt hins vegar nokkrir nm. hafi talið mikinn vafa á, að brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út þessi bráðabirgðal. Það verður líka að segjast, að röksemdafærslan fyrir bráðabirgðal. er sú, að kostnaður við rekstur happdrættis háskólans hafi aukizt. En það er ekki á rökum reist, að það sé aðalástæðan. Verðhækkun miðanna er vitanlega gerð vegna tekjuþarfar háskólans fyrst og fremst, eins og kemur í ljós eftir skýrslu þeirri, sem n. hefur verið látin í té, þegar þetta mál var tekið fyrir.

Það er vitanlega ekki nema sjálfsagt og rétt að létta undir með að greiða þessar skuldir háskólans með þessu móti, því að þótt byggingarkostnaðurinn hafi farið allverulega fram úr áætlun, má telja það vel ráðið að flýta byggingunni eins og komið var, þegar sjáanlegt var, að dýrtíð mundi mjög aukast vegna styrjaldarinnar.

N. hefur ekki séð ástæðu til þess að flytja neinar brtt. við þetta frv., en ég vildi láta þess getið fyrir mína hönd og vegna þeirra radda, sem komu fram í n., að þetta er eitt af þeim málum, sem vitanlega er ekki brýn nauðsyn á, að sett séu bráðabirgðal. um eftir því, hvað stjórnarskráin segir um það, hvenær bráðabirgðal. skuli gefin út.