30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Það er venja hér á Alþ.,frsm. meiri hl. tali á undan, en úr því hann er ekki hér viðstaddur og þess er krafizt, að málið sé tekið til afgr., þá skal ég verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að segja nokkur orð nú þegar.

Í rauninni hef ég ekki miklu við það að bæta, sem fram er tekið í nál. okkar 3. landsk., sem menn hafa vafalaust lesið. En að við höfum ekki getað fallizt á að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, byggist á því, að við álítum litla tryggingu í því fólgna, þó að Landsbankanum sé gert að skyldu að taka frá meiri eða minni upphæð af því, sem hann á inni í enskum bönkum.

Okkur finnst það enn fremur óþarft, jafnvel þótt þessi varasjóður yrði stofnaður, að bæta við nýrri n. til þess að annast stjórn hans, þar sem svo margar n. eru fyrir, sem hafa afskipti af erlendum viðskiptum, og teldum við, að bankaráð Landsbankans ætti að geta annazt stjórn hans.

Í þriðja lagi álítum við, að sú trygging, sem með þessu fengist fyrir gjaldeyrisverzlun landsins, sé svo óviss, að ekki sé til vinnandi, að ríkissjóður greiði þær 240 þús. kr. í vaxtatap til Landsbankans, sem frv. gerir ráð fyrir. Við teljum því réttmætt, að frv. verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá.

„Í trausti þess, að þjóðbankinn (Landsbanki Íslands) geri sitt ýtrasta til, að utanríkisverzlun þjóðarinnar verði rekin svo gætilega sem kostur er á, án þess að ný lög séu sett um skyldur hans í því efni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir, að hv. d. fái nú tækifæri til þess að heyra rök meiri hluta n., og gefst okkur minnihlutamönnum þá tækifæri til þess að ræða málið nánar. Vænti ég, að hæstv. forseti veiti mér þá leyfi til frekari umræðna en ella, þar sem umræðum hefur verið hagað á annan veg en venja er til.