30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason) :

Eins og nál. ber með sér og frsm. minni hl. hefur lýst, hefur n. ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa máls, og hefur minni hl. n. þegar gert grein fyrir sinni skoðun.

Meiri hl. n. lítur svo á, að í þessu frv. felist svo mikilvæg atriði til tryggingar gjaldeyrisverzluninni í framtíðinni, að sjálfsagt sé að taka þau til rækilegrar athugunar.

Það má segja, að stofnun gjaldeyrisvarasjóðs nái ef til vill ekki fullum ætluðum tilgangi, en engu að síður er hér um virðingarverða tilraun að ræða til þess að koma í veg fyrir sömu gjaldeyrisvandræði og við áttum við að búa fyrir stríð. — Og það er mjög æskilegt, að stjórnmálamenn vorir og fjármálamenn hafi vakandi auga með viðskiptum þjóðarinnar út á við og geri ráðstafanir í því efni í tæka tíð, ef þörf krefur.

Það verður ekki séð, að það sé nokkur rökstuðningur gegn frv., sem frsm. minni hl. hélt fram, að þeir vildu ekki leggja þá kvöð á ríkissjóðinn að greiða 200 þús. kr. í vaxtamismun til Landsbankans, því það skiptir ekki máli frá sjónarmiði almennings, hvort bankinn, sem rekinn er algerlega af opinberu fé, leggur fram það fé eða ríkissjóður. Það er auðvitað, að vaxtatap getur orðið vegna þessarar sjóðsstofnunar, og hlýtur þjóðfélagið að bera þann kostnað, hvort sem það nú er í gegnum bankann eða gegnum ríkissjóð.

Meiri hl. hefur ekki séð ástæðu til þess að gera ýmsum stöfnunum, bönkum, sparisjóðum o. s. frv. að skyldu að fá samþykki til lántöku innanlands, enda mun það ekki heldur hafa verið meiningin skv. frv. Brtt. við 8. gr. má því fremur skoðast sem leiðrétting. Með þessari einu breytingu leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. og leggur áherzlu á, að það nái fram að ganga.