30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Pétur Ottesen:

Ég minntist dálítið á þetta frv. við 1. umr. og taldi mig fylgjandi þeirri stefnu, sem fram kemur um þennan sjóð. Jafnframt tel ég rétt, að haft sé eftirlit um lántökur erlendis að því er snertir sparisjóði, bæjar- og sveitarfélög og aðrar opinberar stofnanir. Hér er að vísu ætlazt til, að þetta eftirlit nái til bankanna og þar á meðal Landsbankans, en þar virðist mér nokkuð öðru máli að gegna. Aftur á móti tel ég sjálfsagt, að Hagstofu Íslands séu gefnar skýrslur um skuldir erlendis ársfjórðungslega. Það, sem ég hef við þetta frv. að athuga, var það, sem hæstv. viðskmrh. minntist á um ákvæði 6. gr. Ég hef gert nokkra grein fyrir því, að ég teldi það algerlega geta samrýmzt tilgangi þessa frv., þó að bankaráð Landsbankans færi með þessi mál, með þeirri nánu samvinnu, sem er á milli þessara þriggja aðila, sem hæstv. viðskmrh. nefndi. Ég hef þess vegna ekki sannfærzt af þeim ummælum, sem fram hafa komið hjá hæstv. viðskmrh. um það, að þetta geti ekki allt saman farið vel úr hendi, og tilganginum með þessu frv. verði náð, þótt sú tilhögun verði á þessu höfð. Ég mun þess vegna greiða atkvæði á móti þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir, en mun hins vegar athuga fyrir 3. umr. breytingu í þá átt, að bankaráð Landsbankans hafi þetta með höndum. Ég mun þess vegna að sjálfsögðu fresta því að færa fram þau rök, sem ég álít, að fyrir því liggi, að frekar eigi að gera þá skipun en þessa, sem lögð er til í þessu frv.