30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil segja nokkur orð út af því, sem sagt hefur verið, þó ég vilji ekki tefja umr. um málið.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það, sem skorti aðallega á, væri, að ekki kæmi nægilega glöggt fram í frv., hvaða gagn væri að því að stofna slíkan gjaldeyrisvarasjóð. Það væri kannske einfaldast að vísa í þessu efni til eldri lagaákvæða, eins og t. d. ákvæðanna um gulltryggingu þjóðbankans. Það mætti segja, að bankinn gæti alveg eins fundið upp á því að tryggja sjálfur sína seðla. En Alþingi hefur nú samt talið tryggara að setja viss skilyrði fyrir því, hvernig seðlarnir skuli tryggðir. Það er svo margt, sem segja má um, að vissar stofnanir gætu gert, sem Alþingi vill tryggja með lögum, að sé gert. Um það, hvaða gagn væri að því að gera þessa sérstöku ráðstöfun, vil ég benda á það, að sé þetta ákveðið með lögum, þá muni Landsbankinn telja sér skylt að haga starfsemi sinni þannig, að hægt sé að uppfylla þessi skilyrði laganna.

Hv. þm. A.-Húnv. vildi í þessu sambandi taka dæmi af bónda, sem ætti margt fé og tæki frá vissan hluta fjárins, og sagði svo, hvað hann væri nær um þetta. Það er alveg rétt, en þetta er ekki sambærilegt. Þó að gjaldeyriserfiðleikar séu að vísu illir viðureignar og stafi oft af ástandi, sem erfitt er að ráða við, þá er það ekki hliðstætt við mæðiveikina, því það er oft hægt að gera ráðstafanir gegn því, að þetta verði gert, áður en allir sjóðir verða upp étnir. Það er sem sagt aðalatriðið að mega ekki snerta þennan varasjóð, nema með samþykki þessara aðila, sem hafa vald til þess að gera ráðstafanir, sem gætu komið að gagni til þess að vinna á móti erfiðleikunum. Auðvitað er það rétt, að hér er ekki fundið meðal gegn gjaldeyriserfiðleikunum, en með þessu á að vinna að því, að gjaldeyrisörðugleikar komi mönnum ekki eins á óvart og annars mundi.

Hv. þm. A.- Húnv. sagði, að á þessum tímum væri á ýmsu frekar þörf en eftirliti með skuldum, heldur ætti að hafa það, þegar gjaldeyrisörðugleika bæri að höndum. En það er hætt við því, að við getum gleymt því, að gjaldeyriserfiðleikar geti yfirleitt átt sér stað, og að við venjum okkur of seint á þann hugsunarhátt, sem nauðsynlegur er í þessu efni. Í því sambandi vil ég benda á þann góðærishugsunarhátt, sem var hér á árunum 1927 til 1930. Ég er sannfærður um það, að ef ráðstafanir hefðu verið gerðar á þessum árum til þess að minnka eftirspurn eftir gjaldeyri, þá hefði gengið betur að yfirvinna erfiðleikana heldur en gekk. Það er þetta, sem er aðalatriði málsins.

Af því að hv. þm. Borgf. hefur sagt, að hann ætli að flytja brtt. við 3. umr. um að fella niður ákvæðið um skipun þessarar nefndar, þá ætla ég ekki frekar að ræða um þá nauðsyn, sem ég tel á, að þessi n., sem frv. gerir ráð fyrir, sé skipuð. Ég læt þetta því nægja til þess að tefja ekki framgang málsins.