16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Upplýsingar hæstv. utanrmrh. þóttu mér næsta furðulegar. Hann hélt því fram, að ekki hefði verið venja, síðan utanrmn. var stofnuð, að hún hefði verið höfð til ráðuneytis um samningagerðir við erlend ríki. Þetta fer svo fjarri því, sem rétt er í málinu, að það hefur alltaf verið svo, að þessi mál hafa verið tekin fyrir á fundum þessarar n. ásamt ríkisstjórninni, og það svo gaumgæfilega, að orðalag skeyta til manna í útlöndum hefur verið rætt og síað á fundum utanrmn. Hæstv. núverandi utanrmrh. hefur einnig ávallt fylgt þessari reglu, að undanskildum þeim síðasta tímanum, sem hér hefur verið getið, svo langt sem mér er kunnugt, að hafa fundi um slík mál með þessari n. Nú hefur út af þessu brugðið, og hæstv. utanrmrh, segir, að sér hafi ekki þótt ástæða til að kveðja þessa n. til ráðuneytis, vegna þess að viðskiptanefnd hafi starfað að samningamálunum og síðan hafi málin verið borin undir þingflokkana. Það er þá þar með komin stefnubreyt. í þessu efni undir stjórn þessa hæstv. ráðh. En ég vil benda á, að þessi hv. viðskiptanefnd er eins og hver önnur samninganefnd við útlönd, og samninganefndir við útlönd hafa einmitt verið háðar því, að ríkisstj. hefur tekið þeirra erindisrekstur fyrir til athugunar á fundum með utanríkismálan. Ef ekki er tilætlunin að mynda hér á landi einhverja einræðisstjórn, þar sem ákveðnir aðilar eigi að fjalla um þessi mál, og forðast mest að aðrir geti komið þar að nokkrum aths., þá álít ég, að hæstv. utanrmrh. ætti að breyta um stefnu í þessu máli.

Hvað það snertir, að eitthvað hafi lekið út frá ráðuneytinu eða þessari n. um eitthvert sérstakt mál, skal ég ekkert segja. En mér er ekki kunnugt um það mál. En fyrir nokkrum árum var gerður samningur við erlent ríki, sem fór frá ráðuneytinu, — áður en þessi hæstv. ráðh. kom í ríkisstj. —, og komst sá samningur í blöð, og að vísu afbakaður. Það er engin ástæða frambærileg fyrir því að útiloka utanrmn. frá afskiptum af þessum málum, þó að eitthvað slíkt hafi komið fyrir.

Út af því, sem hæstv. ráðh. vitnaði til í ræðu sinni, að þessi mál séu borin undir þingflokkana, þá verð ég að segja það frá mínu sjónarmiði, að það ráðuneyti, sem hæstv. ríkisstj. getur haft af því að bera málin undir þingflokkana önnum kafna, er tiltölulega lítils virði. Og þó að skýrt sé frá málum í helztu atriðum á fundum þingflokka, þá eru þau ekki mikið athuguð í þingfl. og á allt annan hátt en gert var í utanrmn., áður en hæstv. núv. ríkisstj. tók við stjórnartaumunum. Mér virðist, eftir því sem hæstv. utanrmrh. lýsir þessu, að hann ætti að leggja til, að utanrmn. skyldi vera lögð niður og í hennar stað kæmi sú n., sem hann minntist á, eða eitthvað annað. Það er betra að leggja utanrmn. alveg niður heldur en að láta hana verða áfram aðeins að nafninu til.