30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Ísleifur Högnason:

Enda þótt ég sé ekki samþykkur orðalaginu á þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir, er ég því samþykkur, að þetta frv. sé óþarft og ótímabært af þeirri ástæðu beinlínis, að ég álít, að það sé ekkert vit í að vera að festa fé í sjóðum á þessum tímum, heldur eigi þvert á móti að reyna að koma innistæðum okkar erlendis í verðmæti, sem flutt yrðu til landsins.

Nú hef ég það fyrir satt, enda var það gefið í skyn af hv. þm. A.-Húnv., að gjaldeyris- og innflutningsnefnd væri orðin næsta óþörf stofnun. Það var sagt, að hún gæti ugglaust tekið að sér starf þeirrar n., sem hér um ræðir. Ég held, að það séu aðrir aðilar, sem ráða því, hvað flutt er til landsins og hvað mikið. Ég álít, að ríkisstj. ætti ekki að fara í neinn launkofa með það. Allir vita, að Bretar skammta okkur þær vörur, sem við flytjum inn. Okkar hagsmunir eru þeir sömu og þeirra, að fá eins mikið af verðmætum og mögulegt er, og þess vegna er ekkert vit að festa innistæður okkar í sjóðum erlendis. Ég vil ekki gera það að mínum orðum, að Bretar vilji ekki greiða okkur þessar skuldir, en ég vil segja það, að það sé mjög hæpið, hvers virði þessar innieignir verða, þegar fram líða stundir. Ég er víss um, að með hverjum mánuðinum, sem liður, rýrna þessar innieignir að verðmæti, og er því um að gera að nota þær til að, afla ýmislegra nauðsynja, meðan þess er kostur.

Ég ætla nú ekki að orðlengja um þetta, en af því að hæstv. viðskmrh. var hér í d., langaði mig að fá vitneskju um, af hverju talan 12 millj. er í frv. Ég sé, að ráðh. er farinn úr d., en mig langaði aðeins til að vita, hvernig þessi tala, 12 millj., er fundin upp, því ég sé ekki, að það sé nein grein gerð fyrir því í frv., og að mínu áliti gildir einu, hvort þær eru 12 eða 13, 24 eða 36.