14.05.1941
Efri deild: 60. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Þetta frv. kom frá hv. Nd. og mun vera samið af milliþn. í gjaldeyrismálum, en flutt af hæstv. ríkisstj. Fjhn. hefur athugað frv. og er samþykk efni þess, eins og tekið er fram í nál. á þskj. 458.

Ætlunin með þessu frv. er auðvitað sú að reyna að koma í veg fyrir það í framtíðinni, að þau gjaldeyrisvandræði endurtaki sig, sem átt hafa sér stað oft undanfarin ár, Ég geri ráð fyrir því, að hv. dm. hafi kynnt sér einstakar gr. frv., og sé því ekki ástæðu til að rekja efni þess nákvæmlega, en meginatriðin eru þessi: 1. að Landsbanki Íslands leggi til hliðar gjaldeyri, sem svarar 12 millj. ísl. kr., og stofni með því sjóð, sem nefnist gjaldeyrisvarasjóður. Hann á að vera eign Landsbankans, en háður takmörkunum, sem gert er ráð fyrir í frv. 2. að skipuð skuli 7 manna ólaunuð n., sem hafi með höndum verkefni það, sem tilgreint er í frv., sem sé að úrskurða, hvenær ástæða sé til að taka fé úr gjaldeyrisvarasjóði. Mundi nefnd þessi þá verða eins konar yfirstj. gjaldeyrismála þjóðarinnar. Hún á að vera þannig saman sett, að Alþ. kýs 3 mennina, Landsbankinn tilnefnir 3, en formaður hennar og oddamaður sé ráðh. sá, sem fer með gjaldeyrismál. Yrði hún því að nær helmingi skipuð fulltrúum hins pólitíska valds í landinu, þ. e. Alþingis, og jafnmörgum fulltrúum frá þeirri peningastofnun þjóðarinnar, sem þessi mál eru aðallega viðkomandi, auk þess ráðh., sem fer með gjaldeyrismálin. Er með þessu ætlazt til, að meiri festa verði í meðferð þessara mála og meira tillits gætt en hægt er með því fyrirkomulagi, sem er og verið hefur. Þá er 3. atriðið, að samkv. frv. er ýmsum aðilum óheimilt að taka lán erlendis, nema með samþykki ráðh. gjaldeyrismála, en þessir aðilar eru bankar landsins, sparisjóðir, bæjar- og sveitarfélög og opinberar stofnanir. Aftur er hér ekki ákveðið að banna einstaklingum að taka lán erlendis, og geri ég ráð fyrir, að þeir, sem sömdu frv., hafi talið, að með því væri gengið of nærri einstaklingsfrelsinu. Í 4. lagi er, samkv. 9. gr., lögð sú skylda á alla, sem skulda fé, erlendis, að þeir gefi Hagstofu Íslands skýrslu ársfjórðungslega um skuldir sinar erlendis, en hún skal svo gefa fyrrnefndri n. skýrslu um skuldir landsmanna utan lands.

Þetta eru þau fjögur meginatriði, sem mér virðist frv. hafa inni að halda, og á þau atriði hefur fjhn. þessarar hv. d. fallizt einróma, en í hv. Nd. mun aftur á móti hafa verið nokkur ágreiningur um þetta innan fjhn. þeirrar d.

Ég skal svo að lokum vekja athygli á meginmáli nál. fjhn., sem eru orðaskýringar við frv. Hæstv. ráðh. er hér staddur, og getur hann þá sagt til um það, hvort ekki séu réttar þær athugasemdir, sem þar eru gerðar.

Nefndin ber ekki fram brtt. við frv. En þó kom það til álita í n. að bera fram tvær smávægilegar brtt. Hefði það að líkindum verið gert, ef ekki væri svo áliðið þingtímans, en n. þótti ekki heppilegt að fara að stofna til þess, að frv. yrði sent hv. Nd. héðan af, og þannig ef til vill stefnt í tvísýnu um framgang málsins á þessu þingi.

Út af þessum tveim atriðum vil ég taka fram: Nefndinni þykir ekki nógu skýrt að orði kveðið í frv. um þau. Í fyrri málsgr. 5. gr. er talað um mismun „vaxta þeirra, er bankinn fær af fé gjaldeyrisvarasjóðs, og innlánsvaxta þeirra á sparisjóðsreikningum, sem bankinn greiðir á hverjum tíma.“ Hér telur nefndin sjálfsagt, að átt sé við hæstu innlánsvexti, þegar svo stendur á, að innlánsvextir á sparisjóðsreikningum eru misjafnir, eins og nú á sér stað. — Í síðari málsgr. 8. gr. er vísað til landsbankal. frá 15. apríl 1928 án þess að tilgreina nr. þeirra, og hefði þó þurft að gera það, bæði sakir venju og hins, að tvenn lög um Landsbankann eru frá þessum degi. Átt er við l. nr. 10. Það eru meginlögin, eins og þau líta út, eftir að búið var að fella inn í þau breytingar þær, sem gerðar höfðu verið og fengu staðfestingu hinn sama dag. Nefndin vonast til, að ekki þurfi brtt., heldur nægi, að þessum skilningi sé yfir lýst í nál. og framsögu og mótmæli ekki borin fram gegn honum.

Leggur nefndin því til, að frv. verði samþ. óbreytt.