16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Ísleifur Högnason:

Ég þakka hv. þm. V.-Sk. fyrir, að hann bar fram fyrirspurn til ríkisstj. um, hvað liði máli hinna þriggja ríkisborgara, sem fluttir voru til Englands. Ég hafði áður gert fyrirspurn, en stj. kom sér hjá því að. svara. Ég ætla þá að beina til hv. alþm., hvort ekki sé athugandi fyrir þingið að senda ítrekuð mótmæli og láta þau fela í sér vanþóknun á því, að brezka ríkisstj. beinlínis hundsar þær samþykktir, sem Alþ. gerir, og hefur látið dragast í allt að 2 mánuði að svara.

Þá vil ég einnig bera fram ósk við hæstv. stj. að hún hlutist til um það, að bréf fái að berast á milli þessara handteknu manna og skylduliðs þeirra hér á landi. Það eru bráðum liðnir tveir mánuðir, sem ekkert hefur frá þeim heyrzt, eða síðan skeyti kom frá sendifulltrúa Íslands í London. Fólk þeirra er mjög kvíðið, sérstaklega af því að þeir eru í miðri London og borgin hefur einatt orðið fyrir loftárásum síðan þeir komu þangað. Þess vegna vil ég gera fyrirspurn til hæstv. stj., hvort hún vilji ekki hlutast til um það, að að minnsta kosti hálfsmánaðarlega berist skeyti um líðan þessara fanga. Og í öðru lagi að það geti farið fram bréfaskipti milli þeirra og skylduliðs þeirra, reglulega og án mikilla tafa.

Í þriðja lagi óska ég svars um það, hvort ríkisstj. getur ekki séð sér fært að gera aðstandendum allra þessara manna jafnt undir höfði með lífeyri. Hæstv. ríkisstj. hefur greitt lífeyri til fjölskyldna tveggja, Sigfúsar og Einars, en ellihrum móðir Sigurðar Guðmundssonar blaðamanns hefur ekkert fengið.

Ég ætla að verða við ósk hæstv. forseta og lengja ekki málið, og vona, að hæstv. stj. svari.