21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

17. mál, loftvarnir

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er bráðabirgðal., sem ríkisstj. gaf út. Um ástæðuna til þess, að þessi bráðabirgðal. voru gefin út, þarf ekki að ræða hér í hv. d., því að ástæðurnar eru öllum þm. kunnar. Ríkisstj. tók þá afstöðu til þeirra loftvarnaráðstafana, sem líklegt þótti, að nauðsynlegt væri að gera, að fela bæjar- og sveitarstj. að hafa framkvæmd þeirra á hendi, en kostnaðurinn við þær skiptist jafnt milli ríkissjóðs og bæjar- og sveitarsjóða. Síðan er til þess ætlazt, að ríki og bæir hafi hvort um sig nokkra íhlutun um þessi mál. Lögreglustjórar, sem embættismenn ríkisins, eru formenn þeirra n., sem framkvæmdir eiga að hafa með höndum. Einnig er sett inn í frv. heimild til eignarnáms undir vissum kringumstæðum.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um þetta mál hér í hv. Nd. Hið eina, sem þm. kynni að greina á um, er það, hvort ríkið eða bæjarstj. ættu að hafa þessar framkvæmdir með höndum. Ég tel eðlilegra, að bæjarstj. hafi þessar framkvæmdir með höndum, vegna þess að þær eru hver um sig þessum málum kunnugri en ríkisstj., og munu eiga auðveldara með framkvæmdir á ýmsan hátt heldur en ríkisstj., og tel ég því æskilegt, að hver bæjarstj. hafi framkvæmdir þessara mála með höndum í sínum bæ.

Ég óska eftir, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og allshn.