21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

17. mál, loftvarnir

Finnur Jónsson:

Ég vil í sambandi við þetta mál leggja fram fyrirspurnir til hæstv. ríkisstj. Það er vitað mál, að hér í bænum eru engin sprengjuheld loftvarnabyrgi, og það væri þess vegna afar fróðlegt að fá að vita, hvort nokkrar áætlanir hafa verið gerðar um byggingu sprengjuheldra loftvarnabyrgja. Ég á þar ekki eingöngu við Reykjavík, heldur einnig aðra kaupstaði landsins, sem sérstaka þýðingu gætu haft fyrir þá, sem vildu herja á landið, t. d. Akureyri og Siglufjörð og jafnvel fleiri staði. Það getur vel svo farið, að þetta sé ekki aðeins bráðabirgðaástand, sem ríkir hér á landi, heldur geti það haldizt til langframa. Það gæti hugsazt, að Ísland, vegna þeirra bættu samgangna, sem orðið hafa síðustu ár, yrði mikilvægur þáttur í hernaðarfyrirætlunum ýmissa stórvelda. Mér er kunnugt um, að kostnaður við að byggja sprengjuheld loftvarnabyrgi yrði mikill, þau þurfa að vera grafin marga metra í jörð niður, en ef svo færi, að okkur gengi illa að stikla á milli ýmissa stórvelda, kynni að verða nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Enn fremur vil ég gera fyrirspurn um það, hvort ekki verði talið nauðsynlegt að myrkva Reykjavík og aðra þá staði, sem kynnu að verða fyrir árásum. Ég get bent á það, að t. d. í Danmörku sjást ekki ljós eftir að skyggja tekur, og þykir það sjálfsögð varúðarráðstöfun. Eftir að ég kom heim frá Norðurlöndum, heyrði ég sagt, að það hefði vakið mikla mótspyrnu hér heima, að bærinn yrði myrkvaður, en erlendis þykir það einhver öruggasta loftvarnaráðstöfun, sem hægt sé að gera. Rétt eftir að Þjóðverjar tóku Kaupmannahöfn, var borgin víggirt og ýmsar varúðarráðstafanir gerðar, meðal annars myrkvun.

Þriðja fyrirspurnin, sem mig langar að bera fram, er sú (ég beini henni aðallega til hæstv. dómsmrh.), hvort einhver Íslendingur muni hafa staðið á bak við það, að Bretar komu hingað til lands, og hvort það hafi verið rannsakað. Það er vitað, að einn hv. þm., 3. þm. Reykv., hann hafði sérstaklega óskað eftir því, að Bretar veittu Íslendingum hervernd, og væri fróðlegt að vita, hvort hernám Íslands kynni að vera runnið undan rifjum þessa hv. þm. Þessi hv. þm. hefur látið í ljós nauðsyn slíks, einmitt hér á hv. Alþingi, og hefði það alls staðar annars staðar en hér verið talin landráð.