21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

17. mál, loftvarnir

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Út af þessari síðustu fyrirspurn, hvort nokkur Íslendingur hafi átt þátt í því, að landið var hernumið, þá veit ég ekki, hvort hv. þm. ætlast til, að hún sé tekin alvarlega. En hitt er víst, að ríkisstj. er ekki kunnugt um, að neinn Íslendingur hafi verið við hernámið riðinn. Það vita allir, að þegar land er hernumið, eins og Ísland, þá er það gert samkv. því, sem hlutaðeigandi stórveldi telur öryggisráðstafanir fyrir sína hagsmuni.

Gagnvart myrkvun bæjarins, þá er því að svara, að það mál hefur verið mikið rætt og hefur mætt hinni mestu mótspyrnu, enda þýðingarlítið að myrkva bæinn, þegar björt er nótt, eins og var um það leyti sem hernámið fór fram.

Um það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar um byggingar á sprengjuheldum loftvarnabyrgjum, get ég sagt, að mér er ekki kunnugt um, að gerðar hafi verið neinar áætlanir um kostnað við slíkar byggingar. Hitt get ég upplýst, að sprengjuheld loftvarnabyrgi fyrir allan bæinn mundu kosta margar milljónir króna, ég vil ekki segja tugi milljóna. Þær varnir, sem almenningi hefur verið hugsað fyrir hér, eru aðallega kjallarar, og þeim er fyrst og fremst ætlað að hlífa við sprengjubrotum, en engir þeirra munu vera sprengjuheldir. Mér er sagt, að loft í sprengjuheld loftvarnabyrgi þurfi að vera úr járnbentri steinsteypu, 6–10 sinnum þykkari en loft eru hér almennt í húsum. Þar af geta menn nokkuð séð, hvað kostnaðurinn mundi verða gífurlegur, og það er atriði, sem hv. Alþingi hlýtur að taka tillit til, þó að ýmis rök mæli með því, að þetta þurfi að gera.