27.03.1941
Neðri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Bjarni Bjarnason:

Fyrir nokkuð löngu síðan var lagt fyrir þessa hv. deild frv. til l. um verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkis og ríkisstofnana. Áður hafði mál þetta verið rætt innan flokkanna, og var víst litið svo á, að það yrði afgr, með samkomulagi milli þeirra. Fór frv. þetta að því er ég bezt veit umræðulaust til n, og hefur nú legið þar lengi.

Nú vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv forseta, hvort honum sé kunnugt um, hvers vegna mál þetta fær ekki afgreiðslu hjá nefndinni. Í öðru lagi vil ég spyrjast fyrir um, hvort hv. þm., sem fengið hafa þingfararkaup sitt greitt með fullri verðlagsuppbót, þyki þessi dráttur á afgreiðslu málsins viðkunnanlegur. Það kann að vera, að einstakir þm. hafi ekki hafið verðlagsuppbótina, en ef flestir þeirra hafa þegar hlotið fulla verðlagsuppbót, svo sem frv. gerir ráð fyrir, samir ekki að draga aðra starfsmenn ríkisins, sem verr eru settir og mega ekki við slíkum töfum, á afgreiðslu þessa máls.