13.05.1941
Efri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

20. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál er komið frá hv. Nd. og er til staðfestingar á bráðabirgðal., sem hæstv. ríkisstj. setti. Frv. hefur þó tekið verulegum breyt. í hv . Nd. og hefur heiti þess einnig breytzt. Breyt. á efni frv. eru bein afleiðing af ráðstöfunum, sem hæstv. Alþ. hefur gert á þessu þingi um hina almennu verðlagsuppbót fyrir launtakana í landinú yfirleitt.

Frv. fer fram á það, að allar slysabætur, sem eiga að greiðast samkv. l. um slysatryggingardeild tryggingarstofnunar ríkisins og dánarbætur og örorkubætur, skuli greiddar með uppbót samkv. vísitölu kauplagsn., á sama hátt og uppbót er nú greidd á laun manna. Enn fremur er í frv. gert ráð fyrir því, að hámark þess framlags, sem ríkissjóður og sveitarsjóðir eiga að greiða til sjúkrasamlaga samkv. 1. málsgr. 35. gr. l., eigi að hækka í samræmi við vísitölu kauplagsn. í lok hvers ársfjórðungs. Enn fremur er lagt til, að Lífeyrissjóður Íslands greiði 30% af heildarupphæð ellilauna og örorkubóta samkv. 2. tölul. 80. gr. þeirra l.

Þá er ákvæði um að innheimta iðgjöld til Lífeyrissjóðs Íslands samkv. því, sem ákveðið er í 1. tölul. 49. gr. l., með viðauka samkv. sömu vísitölu kauplagsn. 1. apríl það ár, sem gjaldið er lagt á, þó þannig, að gjaldauki, sem nemur minna en 50 aurum, skal niður felldur, en hækka aftur á móti í krónu, ef hann nemur 50 aurum eða meira.

Að síðustu er hér gert ráð fyrir, að tekjuhámark það, sem samkv. 1. málsgr. 24. gr. er skilyrði fyrir að njóta sjúkrasamlagshlunninda gegn greiðslu á einföldu iðgjaldi, miðist við umreiknaðar hreinar tekjur, að frádregnum persónufrádrætti.

Þessar ráðstafanir eru allar beinlínis afleiðing af þeirri verðbólgu, sem þegar er orðin, og með þessu er tilraun gerð til þess að bæta öllum hlutaðeigendum það upp, sem verðbólgan krefur. Það kemur fram í greiðslum frá tryggingunum og líka í auknum útgjöldum til trygginganna.

Í 2. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, sem er afleiðing af því, sem áður í frv. er lagt til, að ríkissjóður endurgreiði Lífeyrissjóði Íslands þann hluta af framlagi sjóðsins samkv. c-lið 1. gr., sem er umfram 3/4 hluta af tillagi lífeyrissjóðsins samkv. 79. gr. l.

Allshn. hefur nú athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með þeim breyt. á alþýðutryggingal., sem það hefur inni að halda. Ég vilundirstrika það, að allir þeir, sem njóta eiga hlunninda þeirra, sem þetta frv. ræðir um, séu jafnhátt settir eins og aðrir, sem taka laun samkv. verðlagsvísitölu. Hins vegar taldi n. nauðsynlegt, að það kæmi skýrt fram, þegar framkvæma á þessi l., að þessi ákvæði næðu til ársins 1941. N. taldi, að það væri ekki alveg tvímælalaust hægt að finna það út úr frv., að það, þegar að l. yrði, ætti að gilda fyrir árið 1941 og taldi því réttara að umorða upphaf 3. gr. frv., eins og sjá má á brtt. n. í nál. 432. Aðrar breyt. taldi n. ekki nauðsyn, að svo komnu, að gera. Hins vegar hef ég orðið þess áskynja, að hér mun vera á ferðinni brtt. til þess að skera úr nokkrum vafa, sem fram gæti komið við framkvæmd l. Ætla ég ekki að fara inn á efni þeirrar fyrirhuguðu brtt. fyrr en hún liggur fyrir, en hún verður borin fram.

Eins og málið liggur nú fyrir, mælir n. með því, að frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það hefur.