19.05.1941
Neðri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

20. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Það er náttúrlega ekki ástæða til þess að halda áfram fræðilegum umr. um þetta mál við hv. þm. V.-Húnv. Hann taldi það hina mestu fjarstæðu að hækka iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðs, og einnig það að halda áfram fyrirkomulaginu um úthlutun ellilauna eins og það hefur verið. Ég get ekki verið hv. þm. sammála um þetta.

Ég sagði það áðan, að löggjafinn hefði lítið svo á, þegar l. voru sett, að eðlilegast væri að fara eftir mati hreppsn. um þörfina á úthlutun ellilauna, m. a. vegna þess, að þeim er kunnugt um ástæður manna. Auk þess er bæjarfélögum nú skylt að greiða 70% af framlagi til 2. fl. samkv. breyt. á l. frá síðasta þingi, og er því fullkomlega eðlilegt, að sveitarstj. ráði mestu um það, hver úthlutunin er. Hv. þm. sagði, að ekki væri rétt að kalla það, að þetta væri í raun og veru miðað við þörfina, þó að sveitarstj. ákvæðu upphæð ellilauna, vegna þess að í flestum tilfellum væri fjárhagsleg geta sveitarfélaga mismunandi; þess vegna gætu menn mismunandi vel uppfyllt þörfina, sem fyrir hendi væri. Ég skal ekki neita því, að það er nokkuð til í því, að fjárhagsleg geta er lítil í sumum sveitarfélögum. En ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm., hvert það fólk á að leita um styrk sér til framfæris, sem hefur ellilaun í 2. fl., ef það ekki nyti ellilauna. Auðvitað bæri sveitarsjóði skylda til að sjá því fólki fyrir framfæri, og sízt er geta sveitarfélagsins meiri til þess að sjá þann veg fyrir hlutaðeigandi mönnum heldur en þó að það greiði þessi 70%, sem sveitarfélögin greiða til lífeyrissjóðs. Hv. þm. afsannaði líka mjög sitt mál, er hann sagði, að Eskifjörður, sem hefði minnsta þörf allra hreppsfélaga, fengi 70–84 kr. á hvert gamalmenni. Ég hygg, að það standi ekki mörg hreppsfélög framar. En ef þau geta ekki rækt sínar skyldur, verða þau sjálf að sjá fyrir framfæri þessa fólks. Hv. þm. sagði, að ekki væri ástæða til þess að hækka iðgjöldin til lífeyrissjóðs, vegna þess að ríkissjóður endurgreiddi honum það, sem hann leggur fram. Þetta er að nokkru leyti rétt, en þessi hækkun verður aðeins vegna þess, að tekjur lífeyrissjóðs minnka raunverulega eftir því, sem verðgildi peninganna rýrnar. Þegar alþýðutryggingarl. voru samþ. 1936, var gert ráð fyrir því, að tekjurnar af iðgjaldagreiðslum gætu numið 700 þús. kr. og að 750 þús. kr. gætu nægt í flestum tilfellum. En nú nægir þetta ekki, vegna þess að verðgildi. peninganna hefur minnkað eftir því, sem verðlag hækkar. Þess vegna þurfa iðgjöldin, sem voru talin 750 þús. kr. 1936, að hækka eftir því, sem dýrtíðin eykst.