23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Forseti (HG) :

Þann 2. þ. m. barst forseta sameinaðs Alþingis svo hljóðandi bréf, dags. þann sama dag :

„Eins og kunnugt er, lítum við þannig á, að skylt sé að hafa útvarp við frh. 1. umr. fjárlaga, en nú hafa stjórnarflokkarnir komið sér saman um að láta ekki útvarpa þeirri umræðu.

Þess vegna förum við þess á leit við yður, herra forseti, að þér leitið samþykkis þingflokkanna fyrir því, að almennar útvarpsumræður fari fram við 2. eða 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 1942.

Virðingarfyllst.

Ísleifur Högnason, alþm.

Brynjólfur Bjarnason, alþm.

Jóhannes Jónasson úr Kötlum, alþm.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Samdægurs var sent til formanna allra þingflokkanna svo hljóðandi bréf :

„4. landsk. þm. (Ísleifur Högnason), 1. landsk. þm. (Brynjólfur Bjarnason) og 4. (vara)þm. Reykv. (Jóhannes Jónasson) hafa í dag ritað mér á þessa leið:

„Eins og kunnugt er, lítum við þannig á, að skylt sé að hafa útvarp við frh. 1. umr. fjárlaga, en nú hafa stjórnarflokkarnir komið sér saman um að láta ekki útvarpa þeirri umræðu.

Þess vegna förum við þess á leit við yður, herra forseti, að þér leitið samþykkis þingflokkanna fyrir því, að almennar útvarpsumræður fari fram við 2. eða 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 1942.“

Tilmælum þessum vil ég hér með beina til yðar með ósk um, að þér leitið álits þingflokks yðar um málið svo fljótt sem unnt er og látið mig síðan vita um afstöðu flokksins.

Haraldur Guðmundsson

Formaður þingflokks Alþýðuflokksins

— — Bændaflokksins.

— — Framsóknarflokksins.

— — Sjálfstæðisflokksins.“

Nú hafa borizt svör allra flokkanna við þessari málaleitun, og telja þeir sig ekki geta orðið við þeirri beiðni. — Ef einhverjir hv. alþm. óska að lesa svör flokkanna, liggja bréfin frammi í skrifstofunni.