09.05.1941
Neðri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

19. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Sú breyt., sem fólgin er í frv. frá núgildandi l., er eingöngu sú, að í stað þess, að hingað til hefur verið ákveðin upphæð meðgjafar fyrir 3 ár í senn, skal hún nú ákveðin fyrir eitt ár. Ég vil taka fram, að við teljum ekki, að með þessu sé verið að stefna að neinni sérstakri hæð á meðlögunum:

Þá hefur n. borið fram tvær brtt. Um þá síðari er öll n. sammála, að fella niður seinni mgr. 2. gr., þar sem heimilað var að fella úr gildi þessi lagaákvæði, sem ætlazt er til, að komi, með tilskipun. N. þótti óþarfi að ganga inn á slíkt, ekki sízt þegar æðsta vald mála er nú innanlands, því að þá má breyta ákvæðunum með bráðabirgðalögum, auk þess sem að viðhafa tilskipun um þetta brýtur í bága við almennar þingræðisreglur.

Loks er fyrri brtt. Hún gengur í þá átt að ákveða, að verðlagsuppbót skuli greidd á barnsmeðlög frá ársbyrjun 1941, og skuli nema að fullu hækkaðri vísitölu þeirri, sem er á verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins. Þetta er eina ákvæðið í þessari löggjöf, sem kveður skýrt á um, að taka skuli tillit til hækkunar á framfærslueyri og kaupgjaldi í landinu einnig á þessu sviði. Ég get ekki séð annað en að sú ósk sé sanngjörn, að allshn. flytji till. í þessa átt, enda mæla fjórir af nm. með því, að brtt. verði samþ.