26.05.1941
Efri deild: 68. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

49. mál, sparisjóðir

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Þetta frv. hefur verið til athugunar í fjhn. meðan ég var fjarstaddur. Hins vegar var ég á þeim fundi, þegar málið var afgr., og samþykkur þeirri afgreiðslu, sem það fékk hjá n., þótt ég hins vegar hefði kosið, að eftirlitið væri nokkru fyllra en það er í frv., þar sem búizt er við, að frv. það, sem fyrir þinginu liggur um eftirlitsmenn við sparisjóði, muni ekki ná fram að ganga.

Skv. þessu frv. er ætlazt til,. að eftirlitið verði eingöngu hjá ráðherra. Nú er sá ráðh., sem með þessi mál fer, ekki staddur í d., en ég hefði viljað beina því til hans, hvort hann gæti ekki lýst yfir því, að sérstakur maður yrði látinn hafa þetta eftirlit á hendi. Er full þörf á því, að þetta eftirlit sé framkvæmt af nákvæmni, því að sparisjóðirnir eru bæði margir og stórir, og 2–3 þeirra reka fullkomna útibússtarfsefni. Ég tel því ekki réttmætt, að eftirlitinu verði kippt í burtu.

Þá er annað atriði, að kostnaður við eftirlitið er með þessu frv. eingöngu lagður á ríkissjóð. Tel ég, að sparisjóðirnir geti greitt sjálfir fyrir eftirlitið, en ekki eftir þeirri reglu, sem hefur verið látin gilda, þ. e. eftir viðskiptaveltunni, því að það er ekki réttur mælikvarði. Hins vegar ætti að miða við innlánsupphæð, eða öllu frekar við nettóágóða.

Ég vildi aðeins skjóta þessu að, áður en gengið er til atkvæða.