23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég vænti þess, að ummæli hæstv. atvmrh. eigi að hljóða svo, að þrátt fyrir það, að tveir þm. hafi fyrr flutt frv., sem ríkisstj. hefur ef til vill ætlað sér að flytja, þá hygg ég, að það, sem ríkisstj. mundi vilja gera í því efni, verði því á engan hátt til tafar, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.

Það virðist mega líta svo á, að það sé ekki óeðlilegt, að Alþingi, nú á þessum tímum, reisi þeim sjómönnum, sem fallið hafa, bæði í styrjöldinni við Ægi og í þeirri heimsstyrjöld, sem nú geisar, þann minnisvarða á 50 ára afmæli sjómannaskólans, að það yrði kveðið á um byggingu sjómannaskóla á þessu ári.

Ég vænti þess fastlega, að það sé ekki meining hæstv. atvmrh. að tefja þetta mál, svo að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Sé það hins vegar ætlun hans að koma með einhverjar breytingar, sem yrðu til þess, að þessu máli yrði veitt enn þá betra brautargengi en gert er ráð fyrir í frv., þá þori ég að fullyrða, að það er þakksamlega þegið.