10.05.1941
Efri deild: 57. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Fjhn. hefur athugað þetta frv., og m. a. hefur hún rætt það við hæstv. viðskmrh. og hv. þm. Vestm., og var það samkv. beiðni, sem hv. þm. Vestm. bar hér fram við 1. umr. þessa máls.

Ég sé ekki ástæðu til þess að skýra frá því, sem þar fór fram, vegna þess að ég býst við, að það komi hér fram frá öðrum.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum Nd. og var lagt fyrir þingið til staðfestingar á bráðabirgðal., sem gefin voru út 26. jan. síðastl. Þau eru eins og kunnugt er um það, að erlendur gjaldeyrir, sem menn eignast í útlöndum, megi liggja þar inni á biðreikning á ábyrgð eigandans. — Ástæðan fyrir því, að þessi bráðabirgðal. voru gefin út, var auðvitað sú, eins og öllum er kunnugt fyrir löngu, að vegna „þess sérstaka ástands“, eins og það er orðað, sem verið hefur í viðskiptamálum okkar að undanförnu, þá var framboðið á erlendum gjaldeyri miklu meira en eftirspurnin. Framan af keyptu bankarnir allan þennan erlenda gjaldeyri og greiddu andvirði hans í íslenzkum kr., en þeir töldu sér hættulegt að halda þessu áfram í það endalausa, og þess vegna var þessi takmörkun sett með bráðabirgðal.

Frv. tók í Nd. lítils háttar breytingum frá því, sem bráðabirgðal. hafa hljóðað, þannig að 3. gr. bráðabirgðal. var gerð þar nokkuð nákvæmari en hún hefur verið upprunalega.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en .það er till. fjhn. til hv. deildar, að hún samþykki frv . óbreytt eins og það liggur fyrir.