10.05.1941
Efri deild: 57. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Jóhann Jósefsson:

Eins og kom fram í ræðum hæstv. viðskmrh. og hv. frsm., þá mæltist ég til þess við 1. umr. þessa máls að mega tala við n. og ráðh. áður en málið færi gegnum deildina að öllu leyti.

Ég þakka hv. n. fyrir að hafa veitt mér þetta tækifæri og hæstv. ráðh. fyrir að hafa hafið máls á því; sem ég fór sérstaklega fram á, sem var það, sem hæstv. ráðh. minntist á, að sett yrði inn í bréf þeirrar n., sem hefur yfirumsjón á þessum gjaldeyri, að eigendur frosinna pundainnistæðna mættu nota af þessum innistæðum til

þess að kaupa skip og vélar í skip, ef svo bæri til, að þeir ættu kost á því, skip, sem þeir ætluðu sjálfir til eigin afnota.

Mér þykir talsvert betra, að þessu hefur nú verir lýst yfir af hæstv. viðskmrh., en að öðru leyti vil ég segja það um málið, að þrátt fyrir það, að ekki séu gefin jafnskilyrðislaus loforð um aðrar nauðsynjavörur eins og hér var gert að því leyti, er skip og vélar snertir, þá vil ég vænta þess, að þegar fram liða stundir, verði af hálfu ráðh. og gjaldeyriskaupan. gert allt, sem unnt er, til að greiða fyrir því, að landsmenn, hverjir sem eru, geti notað innistæður í Bretlandi, beint eða óbeint, til þess að landið eða þjóðin fái sem mest af fötum eða hagnýtum efnum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en ég þykist viss um, að hv. dm. séu á þeirri skoðun, að þetta sé þjóðarnauðsyn, að hinar miklu pundaeignir, sem nú hafa safnazt fyrir eða kunna að safnast fyrir á ókomnum tímum í Englandi, verði þjóðinni á þennan hátt til gagns: Náttúrlega vonar maður einnig, að það, sem kann að standa á biðreikning, verði ekki með öllu ónýtt, þó að margir beri mikinn ugg í brjósti um það, að upphæðir af þessu tagi, sem safnast saman á tímum eins og nú standa yfir, þær séu ótraust eign.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, hef drepið á það áður í sambandi við annað mál og vil því ekki leng ja hér umr.

Það má segja, að hér sé um óviðráðanlegar ástæður að ræða, sem allir landsmenn; með ríkisstj. að forystu, verða að reyna að gera eins bærilegar fyrir þjóðina og unnt er og menn hafa bezt vit á.