20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. af hæstv. ríkisstj. og er um það, að auk þess innflutningsgjalds af benzíni, sem innheimta skal skv. l. frá 1932 og var ekki nema 4 aurar af hverjum lítra, skuli innheimta 5 aura innflutningsgjald af hverjum lítra frá næstu áramótum að telja. Með þessu fer ríkisstj. fram á, að þau lagafyrirmæli, sem hafa gilt undanfarin ár, skuli vera í gildi áfram. Þessi lagaákvæði hafa verið í l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, og gilda þau til næstu áramóta. En gert er ráð fyrir, að þau l. verði ekki framlengd á þessu þingi, og því er þetta frv. um benzínskattinn flutt sérstaklega. Fjhn. hefur athugað frv., og er álit hennar prentað á þskj. 525. Leggur n. til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt. Í fyrsta lagi, að l. gildi aðeins um 2 ára skeið, fyrir árin 1942 og 1943. Þá vill n. gera það að till. sinni, að í l. verði sett sérstök fyrirmæli um ráðstöfun á þessu aukainnflutningsgjaldi af benzíni, shlj. þeim ákvæðum, sem hafa verið í gildi undanfarið. Skal 4/5 hlutum af þessum tekjum, sem fást eftir frv., verja til að greiða kostnað við lagningu akvega og malbikun þjóðvega, en 1/5 hluta skal verja til brúargerða, og er það shlj. því, sem nú er í l. fyrir yfirstandandi ár, er samþ. voru á síðasta þingi. Þá er það tekið fram eins og í eldri l., að meðan ekki er fært að flytja inn efni til brúagerða, þá skuli geyma þetta fé, þar til hægt verður að hefja framkvæmdir síðar. Að lokum er það tekið fram, að það fé, sem skv. frv. á að verja til vegagerða og sérstaklega er ráðstafað í fjárl., þ. e. a. s. það, sem kann að vera umfram það, sem sérstaklega er ráðstafað í fjárl., skuli lagt í sérstakan sjóð, er varið verður til lagningar Suðurlandsbrautarinnar á árunum 1943 og 1944. Þetta eru sams konar fyrirmæli og nú eru í l.

Eins og nál. ber með sér, þá vildi einn nm., hv. þm. A.-Húnv., samþ. frv. óbreytt frá því, sem að kom frá ríkisstj.

Nú á þessum fundi hefur verið útbýtt brtt. á þskj. 567, frá hæstv. fjmrh., og er hún þess efnis, að það fé, sem varið verður til lagningar Suðurlandsbrautarinnar skv. síðustu málsgr. í 2. brtt. n., skuli þó ekki vera meira en 100 þús. kr. hvort árið, en verði umframtekjur meiri, skuli þær skiptast niður á hina ýmsu vegi, sem ákveðið er í fjárl., að tekjurnar renni til.

Vegna þess, að þessari brtt. var fyrst útbýtt nú á þessum fundi, hefur fjhn. ekki haft aðstöðu til að taka hana til athugunar, og get ég því ekki sagt um álit einstakra manna í n. á henni.