20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Pálmason:

Eins og tekið er fram í nál. fjhn. á þskj. 525 og frsm. vék að, þá lít ég þannig á þetta mál, að réttast væri að samþ. frv. eins og það kom frá stjórninni. Þetta stafar ekki af því, að það sé nein andstæða eða óvinátta frá minni hendi til þeirra framkvæmda, sem um er að ræða í brtt. n., heldur hitt, að ég er á sömu skoðun og kom í ljós hjá hæstv. fjmrh., að það sé mjög óviðeigandi, þegar Alþingi er að binda tekjur ríkisins þannig, að þetta skuli ganga í þetta verkið og hitt í hitt o. s. frv. Ég lít þannig á, að það eigi að vera á valdi Alþingis að ráða á hverjum tíma, hvernig því fé sé varið, sem inn kemur með sköttum og tollum, sem ríkið hefur tekjur af.

Hvað sérstaklega snertir þetta mál, þá hef ég kynnzt því árum saman í sambandi við starfsemi mína í fjhn., hvað þetta er óheppilegt að vera að skipta þeirri fjárveitingu, sem til vegagerða þarf, í tvennt og jafnvel til margra sömu vega og vera að setja það inn í fjárl., að þetta skuli borga af benzínskattinum til þessarar brautar og hitt til hinnar.

Viðvíkjandi því, hvort það sé svo sérstaklega nauðsynlegt að leggja til hliðar einn eyri af þessum skatti til þess að byggja fyrir það brýr, þá er hið sama að segja um það, að ef ríkissjóður sér sér fært að byggja brýr áfram, þá er sjálfsagt að fylgja því, eftir því, sem fjhn. telur á hverjum tíma réttmætt og eðlilegt. En að binda tekjur ríkissjóðs á þennan hátt, það er ákaflega óviðfelldið, og hefur verið farið inn á þær brautir í þeim tilgangi að gera hina ýmsu skatta, sem á eru lagðir, vinsælli en ella, að ákveða, að þetta skuli renna í þennan staðinn og hitt í hinn, en það er ekki tekið með í reikninginn, hvað ríkið þarf til þess að halda uppi þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegar eru.

Ég sé svo ekki ástæðu til að tala frekar um þetta mál. Það er ekki það kappsmál frá minni hálfu, að ég sjái ástæðu til þess að þreyta neinar kappræður um það. En þetta er sjónarmið, sem ég hef ekki einungis nú, heldur hef haft á undanförnum árum, og ég get ekki fallið frá fyrir þeim rökum, sem ég hef hingað til heyrt, hvorki hvað snertir þetta mál né ýmis önnur, sem svipað stendur á með.