21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég kvaddi mér hljóðs nú sem fyrr — til þess aðeins að láta í ljós þá skoðun — mína, að þeim umbótum, sem verið er að keppa eftir, sé á mjög vafasaman hátt fullnægt með því fé, sem ætlað er til áframhalds Suðurlandsbrautarinnar, eins og frv. gera ráð fyrir, sem liggja fyrir Alþingi. Og mér kemur það í rauninni dálítið spánskt fyrir, að þetta er gert, þegar lítið er til þeirrar alþingissamþykktar, sem nú liggur fyrir frá síðasta þingi, þar sem þessar mikilsverðu samgöngubætur milli Suðurlandssvæðisins og höfuðstaðar vors voru til umr. Þingið samþ. þá till. til ályktunar um að rannsaka nú á ný til hlítar, hvar mundi reynast hentugust leið til fullnægingar og verulegra samgöngubóta á milli þessara umræddu staða, leið, sem uppfyllti hvort tveggja skilyrðið að vera hin skemmsta og öruggasta. Í þessari samþykkt Alþingis lá áskorun til hæstv. ríkisstj. um athugun á þessu máli. Man ég ekki, hvort tekið var fram, að leggja skyldi niðurstöðuna fyrir næsta þing, en það er þó óbeint sagt með því að óska eftir slíkri rannsókn. Það bendir í rauninni óþægilega til þess, að hv. þm. séu meira og minna á reiki með skoðanir um framkvæmd þessa máls, þar sem engar líkur eru til annars en að allt, sem ályktað var á næsta Alþingi á undan, sé nú gleymt. Ég hef sem sé ekkert heyrt, hvorki frá vegamálastjóra né frá ríkisstj., hvað hún hafi gert til þess að fylgja eftir þessari samþykkt, sem gerð var hér á Alþingi í fyrra. Og mér finnst varla hægt, í sambandi við þetta mál, að ganga fram hjá að minnast á þetta málsatriði. Mér finnst því að réttu lagi, að það megi og eigi að hafa áhrif á þessar aðgerðir, sem hér hefur verið samþ. áður, nefnilega áskorun á ríkisstj. að rannsaka málið frekar. Og ég vil beina því til þeirra af hæstv. ríkisstj., sem hér eru viðstaddir, að ég vænti þess, að athugunum og rannsóknum í samræmi við þessa till., sem Alþingi samþ., verði flýtt með allri gaumgæfni, svo að málið geti skýrzt fyrir alþjóð manna og fyrst og fremst alþingismönnum.

Um það, hvort þessi Krýsuvíkurleið sé rétt eða rangt ráðin, er nú svo margt búið að ræða, en ég vil samt sem áður segja, að þegar sú vegagerð er helguð, ef svo mætti segja, samgönguþörf Suðurlandshéraðanna við höfuðstaðinn, jafnvafasöm og hún er, enda dregið í efa réttmæti hennar meira að segja af sjálfum vegamálastjóra landsins, þá er svo mikið í húfi; að ég álít þessa athugun því sjálfsagðari. Ég vona, að einhverjir þeirra þm., sem hafa vitt það á þingi, að gengið sé í berhögg við vilja þessara forustumanna, eins og t. d. við skoðun sandgræðslustjóra, séu sammála um þetta. Og þar sem það er gert að verulegu atriði, að slíkir trúnaðarmenn ríkisins geti gert skoðun sína gildandi, og þar sem það er játað, að vegamálastjóri hefur frá öndverðu verið mótfallinn þessari vegagerð, þá fæ ég ekki annað séð en að það samrýmist illa, að hann sitji áfram í embætti, þegar löggjafinn hefur till. hans að engu.

Að því er snertir till. hæstv. fjmrh., þar sem sett er hámark á framlag til Krýsuvíkurvegarins, verð ég að segja, að mér finnst sú till. hvorki fugl né fiskur. Annars vegar er játað, að þessi vegagerð eigi einhvern rétt á sér, með því að veita fé til hennar, en hins vegar er dregið úr fjárveitingunni, til þess að seinka framkvæmdum. Annaðhvort er þessi vegagerð vit eða vitleysa. Ég held fyrir mitt leyti, að hún eigi engan rétt á sér.

Það er rætt um tvær snjóléttar leiðir, Krýsuvíkurleiðina og Þingvallaleiðina, og í þriðja lagi er svo verið að bæta Hellisheiðarveginn. Með svona framkvæmdum er samgönguþörf Suðurlandsundirlendisins engan veginn borgið. Væri nær að verja þessu fé til annarra þarfari samgöngubóta, t. d. eru margar stórelfur enn óbrúaðar eystra, og má þar til nefna Hvítá hjá Iðu, í miðju læknishéraði, sem mjög er áríðandi að verði brúuð sem fyrst.

Ég mun ekki leggja fram neina brtt. hér að lútandi, en vildi ekki láta hjá líða að lýsa skoðun minni á þessu máli í meginatriðum.