23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Það er engu líkara, eftir því formi, sem umr. taka, en að við, sem tekið höfum til máls og látið okkur málið að einhverju leyti skipta, eigum um það enga samleið og þekkjum ekki þá vegi, sem um er að ræða. En að vísu er því ekki þannig háttað. Því að við, sem oft höfum farið milli höfuðstaðarins og sveitanna austanfjalls, vitum allir jafnvel, að vegabóta er þörf, og því er engin manndyggð. af okkur, þó að okkur sé það einlægur hugur, að vilja hið bezta til bóta. En það er, eins og oft vill verða, til trafala og erfiðleika, að það er um leiðirnar, sem skilur.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að það er rétt hjá hv. 2. þm. Árn., að ég hef haldið fram og held fram enn þá, að Krýsuvíkurvegurinn hefur verið fljótræðisverk. Ekki þannig, að ef nóg væri úr að spila og allir möguleikar fyrir hendi að hyggja vegi um landið þvert og endilangt, þar sem einhver samgönguþörf væri, þá væri einnig gott og blessað að fá þennan veg. En því minna, sem úr er að spila til nauðsynlegra framkvæmda, því nauðsynlegra er, að rétt sé ráðið og hvergi lagt í framkvæmdir annars staðar en þar, sem mest liggur á og bezt fullnægir hinni almennu og viðtæku þörf. Ég held, að þessu skilyrði sé ekki fullnægt um Krýsuvíkurveginn að því er snertir samgöngur milli þeirra landshluta, sem um er að ræða, og höfuðstaðarins. Ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Þetta hefur oft verið rætt og getið um rökin með og móti, að það er ekki nema að tefja þingið að endurtaka slíkt svo mjög. Ég vil aðeins taka fram hér það, sem hv. 2. þm. Árn. nefndi nú sem málsástæðu af hálfu hæstv. fjmrh., að Krýsuvíkurvegurinn kæmi ekki að notum fyrr en hann er allur lagður. Ég verð nú að segja það, að ef veginum er ætlað — með heilindum — að vera öryggisleið milli Reykjavíkur og Suðurlandssveitanna, þá skýrir það sig sjálft, að hann kemur ekki að þeim notum, fyrr en hann er allur lagður. Hitt er svo álitamál, hvort hann komi ekki að takmörkuðum notum fyrir ákveðin byggðarlög eða bæi, meðan hann er ekki gerður nema að nokkru leyti. Og það álít ég að vísu giftusamlegt í þessari vegagerð, að það virðist hafa verið byrjað á réttum enda og vegurinn lagður eftir þéttskipuðu byggðarlagi, svo að hann er þegar orðinn að gagni út eftir öllu Ölfusi, og er það mjög vel farið. En aftur á móti viðvíkjandi framhaldi vegarins frá því, sem nú er, ef miða á við það, sem hv. þm. nefndi þar sérstaklega, Þorlákshöfn, Selvog og. sambandið frá Hafnarfirði og Reykjavík til Krýsuvíkur, þá eru það smámunir einir, sem varla eru frambærilegir, þegar höfuðtilgangur þessara stórvægilegu framkvæmda, sem hafður er a. m. k. að yfirvarpi, er sá, að ná stóru hagræði og öryggi í samgöngum fyrir heilan landsfjórðung. Útræðisstaðurinn Þorlákshöfn er góðs maklegur og mætti vaxa og fá öryggi í samgöngum. En vegurinn er nú kominn út með öllum hliðum á næstu grös, svo að álman þangað ætti að geta komið án tillits til heildarframgangs þessa vegar þvert yfir. Um Selvog er það að segja, að með því að halda veginum áfram út Selvoginn, yrði akfær samgöngubót fyrir Selvogshrepp, þessa nálega 20 búendur, sem þar eru. Þetta kynni þeim, Selvogsmönnum, að þykja nokkurt hagræði, en þeim eru samgöngubætur alveg óvenjulítil nauðsyn, miðað við samgöngubætur yfirleitt, fyrir sína afkomumöguleika. Af hverju er það, að ég staðhæfi þetta? Af því að í Selvogi er þannig háttað, að í búskap er nær eingöngu að ræða um sauðfjárrækt og eitthvert örlítið bjargræði af sjó, eftir því sem það gefst.

Kúabú í Selvogi er ekki nema til heimabjargræðis, og hygg ég tæplega þau skilyrði fyrir hendi, að það blómgist. En af því að Selvogsmenn lifa af sauðfjárrækt, hafa þeir látið í ljós, sem þar búa, að slíkur vegur sé þeim ekki nein höfuðnauðsyn. Því að slátrun fer fram á einni árstíð, og féð þá venjulega rekið.

Um það að opna héðan veg til Krýsuvíkur og miða við landareign einnar jarðar hinum megin á Reykjanesskaga, þá finnst mér það svo smávægilegt, þegar litið er á málið í heild, að tæplega sé frambærilegt.

Hann tók það fram, hv. 2. þm. Árn., að ég sækti fast um rannsókn annars staðar. Gott og vel. Ég bar fram till. í fyrra, að rannsakaðar væru samgönguleiðir milli Reykjavíkur og Suðurlandssvæðisins, þar sem væri miðað við tvennt: að vegurinn væri sem skemmstur og sem öruggastur allar árstíðir. Þessi till. var samþ. sem ályktun Alþingis á síðasta þingi. Svo að það má fyllilega skírskota til þingheims um þennan áhuga, eins og mín persónulega. Ég veit ekki betur en þetta mál liggi fyrir ríkisstj. og vegamálastjóra eftir boði Alþingis. Það þótti ekki meiri firra en svona á síðasta þingi, hvað sem nú reynist. Alþingi er því miður reikandi um þetta stóra mál. Það er engu líkara en að Krýsuvíkurákvörðunin hafi verið tekin í einhverjum gleðskap eða samkvæmi án tillits til veruleikans.

Ég hef varla skap til að fara út í það margrædda atriði, að þarna sé svo snjólétt, að með þessari leið séu samgöngurnar komnar í örugga höfn. Það er deilt um þetta, og það af afar kunnugum mönnum, kunnugri fjallaferðum og snjóalögum um þessa Krýsuvíkurleið heldur en ég geri ráð fyrir, að nokkur maður sé hér inni. Það eru menn, sem eru aldir upp þarna, sem segja, að ef leggja ætti þennan veg að sunnanverðu, ætti ekki að leggja hann með Kleifarvatni, heldur annars staðar. Ég dæmi ekki um þetta, því að mig mun, eins og fleiri hér, bresta fullan kunnugleik til þess. Og þegar maður hugsar um þær sprengingar með dýnamíti og annan djöfuldóm, sem þarf til að leggja þennan veg þessa örðugu leið, þá lítur þetta mál dálítið „kómiskt“ út. Hér er ekki deilt um það, hvort þurfi samgöngubót eða ekki. En það átti að virða vilja Alþingis frá í fyrra og rannsaka málið með alvöru, til þess að ganga úr skugga um, hvar bezt væri, að vegurinn sé lagður. Ég þarf ekki að afsaka mína gagnrýni né taka fram, að það er ekki af illvilja til samgöngumála þarna austur yfir, sem ég segi þessi orð, — það er af því gagnstæða. Og ég geri ráð fyrir, að segja megi það sama um þá, sem halda fram annarri leið. Ég styðst við kunnugleika margra manna og hef talað þannig, að margir, sem helzt eiga við þessar framkvæmdir að búa, mundu vera mér sammála. Ég vil fá ötula rannsókn inn í málið og þekkingu, án tillits til alls annars en málefnisins sjálfs.