24.05.1941
Neðri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég skil ekki þetta. Mér finnst efni till. afar einfalt, svo að ekki sé ástæða til að fresta málinu hennar vegna. Í brtt. fjhn. er gert ráð fyrir, að það, sem 4/5 hlutar teknanna samkvæmt l. þessum kunna að fara fram úr þeirri fjárhæð, sem sérstaklega er ráðstafað í fjárl., leggist í sérstakan sjóð, er verði ráðstafað til lagningar Suðurlandsbrautar á árunum 1943 og 1944. En í brtt. hv. 8. landsk. er ætlazt til, að tekjunum yfirleitt, sem fást samkv. ákvæðum l. þessara, verði varið til að greiða kostnað við lagningu akvega og malbikun þjóðvega, eftir því sem ákveðið er í fjárl., svo og til brúargerða á Hvítá í Árnessýslu og Jökulsá á Fjöllum. Þá er í brtt. ákvæði þess efnis, að ef ekki þyki fært að flytja inn efni til brúargerða á tveim næstu árum, þá sé fé það, sem til brúnna skal varið samkv. ákvæði þessu, geymt þar til kleift verður að flytja inn byggingarefni. Mér finnst þetta mjög einfalt og því engin ástæða til að fresta málinu. Annars legg ég til, að till. fjhn. verði samþ. óbreyttar, án þess að ég geri það þó að kappsmáli. En ég vek athygli á því, að ég tel ekki æskilegt á þessum tímum að binda tekjur ríkissjóðs við einstakar framkvæmdir, þar sem allt er nú mjög í óvissu að því er snertir fjárhagsafkomuna. Þeim, sem bera Suðurlandsbrautina sérstaklega fyrir brjósti, vil ég benda á það, að lítil reynsla er fengin um það, hver hagur muni verða að lagningu hennar. Samgöngur við Suðurland hafa yfirleitt verið góðar að undanförnu, þegar vetur hafa verið sæmilegir.